Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir það alvarlegt að grundvöllur fyrir innheimtu hluta skrásetningargjalds Háskóla Íslands sé ekki fullnægjandi.
Hún segir boltinn nú hjá Háskóla Íslands sem þurfi að taka niðurstöðuna og skoða hvort hægt sé að bæta úr þeim útreikningum sem standa að skrásetningargjaldinu.
Aðspurð hvort hún telji að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar geti orðið til þess að ríkið þurfi að leggja skólanum til aukið fé, segir hún það alveg eftir að koma í ljós.
„Niðurstaðan kveður ekki á um endurgreiðslu heldur fellir niður ákvörðun skólans um að endurgeiða ekki að hluta til og nú hefur háskólaráð það til umfjöllunar hvort hægt sé að koma með sterkari og fullnægjandi útreikninga fyrir þjónustugjaldinu.
Það er auðvitað rík krafa á að þjónustugjöld séu þannig úr garði gerð að þau beri eingöngu þann kostnað sem af hlýst fyrir þá þjónustu sem á að veita. Því var að hluta til ábótavant miðað við þessa niðurstöðu.“
Tekur þú undir niðurstöðu nefndarinnar?
„Ég virði bara niðurstöðu nefndarinnar og það er augljóst af henni að skólinn þarf að rökstyðja þetta betur.“
Segist Áslaug hafa tekið þá ákvörðun þvert á beiðni skólanna að hækka ekki skrásetningargjaldið fyrir næsta ár.
„Það gerði ég annars vegar með tilliti til þeirra efnahagsaðstæðna sem eru uppi og hvernig þær koma við ungt fólk. Hins vegar þarf augljóslega að liggja fyrir betri rökstuðningur á þesu þjónustugjaldi sem hefur þó ekki hækkað síðan 2014.“
Ráðherra segir opinberu skólana telja, eins og fram hafi komið í beiðninni til hennar, að þjónustan sé kostnaðarmeiri en þakið sem um ræðir og segist hún heyra á rektor að hann telji að hægt sé að rökstyðja þjónustugjaldið með meira fullnægjandi hætti.
Áslaug segir það ekki beinast að ráðuneytinu enn sem komið er.
„Við erum í sókn fyrir háskólana, auka samstarf þeirra og að byggja upp gæði háskóla á Íslandi og við kvikum engu frá því þrátt fyir þessa niðurstöðu.“