Saga VR, fyrirtæki sem sérhæfir sig í upplifunum í sýndarveruleikanum, hefur skrifað undir samstarfssamning við Hörpu.
Búið að setja upp rými í Hörpu, þar sem að fólk getur upplifað sýndarveruleika Sögu VR.
„Saga VR er ferðamennska sem byggist á sýndarveruleikaupplifun þar sem hægt er að upplifa Ísland úr lofti. Um er að ræða margmiðlunarefni þar sem hægt er að upplifa sjónarhorn fuglsins fljúgandi í 360 gráðum. Áhorfendur sjá til dæmis eldgosið við Fagradalsfjall, Seljalandsfoss, Landmannalaugar, Jökulsárlón á Suðurlandi, Goðafoss, Mývatn, Ásbyrgi á Norðausturlandi og Snæfellsnesið. Leikstjórar og framleiðendur eru Leif Einarsson og Sigurjón Sighvatsson en þeir eru stofnendur Saga VR ásamt Jóhanni Pétri Reyndal og Hafdísi Hreiðarsdóttur sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins,“ segir í tilkynningu.
„Við leituðum nýrra leiða til þess að gefa fólki tækifæri á að upplifa Ísland. Í raun er um að ræða nýja tegund ferðamennsku, sýndarveruleikaferðamennsku eða jafnvel græna ferðamennsku, þar sem markmiðið er að leyfa erlendum ferðamönnum að upplifa landið á einstakan hátt. Við settum upp svokallað „pop up“ rými í Hörpu í sumar og var því afar vel tekið af bæði ferðamönnum og heimamönnum. Harpa er mikið menningarhús og það er ánægjulegt að við höfum nú gert samning um áframhald Saga VR í húsinu,“ er haft eftir Sigurjóni Sighvatssyni í tilkynningu.
Stofnendur Sögu VR sjá fyrir sér að stækka við sig víðsvegar um landið og bjóða upp á fleiri upplifanir í sýndarveruleikanum.