Vígslubiskuparnir á Hólum og í Skálholti munu taka allar stjórnsýslulegar ákvarðanir biskupsembættisins sem lögfylgjur kunna að hafa og mun svo verða þar til nýr biskup hefur tekið við embætti, verði tillaga þar um samþykkt á kirkjuþingi í dag. Í annarri tillögu sem fyrir þinginu liggur segir að staðgengill biskups sé bær til að sinna störfum biskups Íslands þar til nýr biskup hefur verið kjörinn, en staðgenglar biskups eru vígslubiskupar.
Svo sem kunnugt er úrskurðaði úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar Agnesi M. Sigurðardóttur umboðslausa í embætti eftir að skipunartími hennar rann út 30. júní 2022. Því hefur verið haldið fram af lögmönnum að embættisverk hennar síðan þá séu þar með ógild.
Lögfylgjur þess gætu orðið víðtækar, t.a.m. að vígsla presta sem umboðslaus biskup hafi vígt sé í raun marklaus og þar með embættisverk þeirra, svo sem hjónavígslur. Það gæti síðan haft aðrar afleiðingar, t.d. um fjárskipti, kæmi til skilnaðar hjóna sem í reynd væru alls ekki hjón þar sem vígsla prestsins sem gaf þau saman var ógild og hann því ekki prestur og þ.a.l. ekki löggiltur vígslumaður.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.