„Þetta er enginn misskilningur“

Jessý Jónsdóttir vélaverkfræðingur.
Jessý Jónsdóttir vélaverkfræðingur. Samsett mynd

Nemandinn sem höfðaði mál á hendur Háskóla Íslands um endurgreiðslu skrásetningargjalda fagnar niðurstöðu áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Hún segir úrskurðinn ítarlegan og að ekki sé um að ræða neinn misskilning líkt og rektor skólans hefur haldið fram. 

Áfrýj­un­ar­nefnd í kæru­mál­um há­skóla­nema felldi úr gildi úr­sk­urð há­skólaráðs frá 3. nóv­em­ber 2022 um að hafna beiðni nem­anda við Há­skóla Íslands um end­ur­greiðslu skrá­setn­ing­ar­gjalds við skól­ann. Af því leiðir að skólanum beri að endurgreiða nemandanum skrásetningargjöld til skólans að því marki sem ofgreitt hefur verið. 

Ákvað að láta slag standa

Jessý Jónsdóttir vélaverkfræðingur er nemandinn sem höfðaði málið. Hún segir ástæðuna fyrir kærunni einfalda, málið hafði verið til umræðu um nokkurt skeið og ákvað hún því, með góðri aðstoð kunningja, að láta slag standa og láta reyna á lögmæti skrásetningargjaldsins. 

Á þeim tíma sem kæran var lögð fram var Jessý, sem nú er útskrifuð sem vélaverkfræðingur, nemandi við Háskóla Íslands. Hún sat í stúdentaráði fyrir Röskvu, var hagsmunafulltrúi á skrifstofu stúdentaráðs, sat í háskólaráði auk þess að sinna trúnaðarstörfum fyrir stúdentaráð. Hún lifði því og hrærðist í hagsmunabaráttu stúdenta og tók meðal annars þátt í umræðum um lögmæti skrásetningargjaldsins. 

Gerir ráð fyrir endurgreiðslu

Jessý fagnar niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar og bindur miklar vonir við að endurgreiðsla frá Háskólanum gangi eftir. „Ég hef þegar óskað eftir því að fá endurgreiðslu frá háskólanum og sent upplýsingar þess efnis,“ segir hún og bætir við að Háskólaráð muni funda á fimmtudag í næstu viku og því hugsanlega von á afgreiðslu um málið. 

„En auðvitað sé ég ekki annað í þessu en að þetta verði endurgreitt.“ 

Umræðan í fjölmiðlum afvegaleidd

Í samtali við blaðamann segir Jessý að sér þyki umræðan um málið í fjölmiðlum hafa verið afvegaleidd. Í því samhengi vitnar hún í yfirlýsingu frá Jóni Atla Benediktssyni, rektors Háskóla Íslands, þar sem hann segir að nokkurs misskilnings gæti um niðurstöðuna. 

Jessý segir úrskurðinn mjög ítarlegan og að ekki sé um að ræða neinn misskilning. 

„Það sem stendur í úrskurðinum er náttúrulega bara að háskólinn hefur ekki fylgt lögum við útreikning þessara gjalda,“ segir Jessý og bætir við:

„Ef niðurstaðan er skoðuð þá má sjá að þetta er enginn misskilningur.“

Ekki hægt að leysa málið með eftir á útskýringum 

Jón Atli sagði í samtali við mbl.is í gær að ekki væri búið að úrskurða um að gjaldið væri ólögmætt, heldur væri verið að gera athugasemdir við það hvernig gjaldið væri reiknað og hvaða útreikningar lægju að baki. Þá sagði hann að nú þyrfti háskólaráð að fara aftur yfir málið og að því loknu kæmi ný niðurstaða frá ráðinu. 

Jessý segist ekki sjá hvernig eftir á útskýringar geti leyst málið eða útskýrt það frekar. Hún segir að háskólanum hafi verið gefið mikið rými til að leggja fram gögn, en að það hafi ekki verið gert.

„Það er verið að smækka þetta mál og tala um einhvern misskilning. Ég sé ekki að þetta sé einhver misskilningur, mér finnst úrskurðurinn mjög skýr. Þetta er stórt hagsmunamál fyrir nemendur. Það þarf að vera vel að fjármögnun háskólans staðið, hann er vanfjármagnaður og það er eitthvað sem þarf að skoða, en það á ekki að sækjast í vasa stúdenta til að leiðrétta halla háskólans.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert