„Þetta er stríð gegn börnum“

Sveinn Rúnar og Ilmur fyrir utan Ráðherrabústaðinn.
Sveinn Rúnar og Ilmur fyrir utan Ráðherrabústaðinn. mbl.is/Hákon

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og fyrrverandi formaður félagsins Ísland-Palestína, og leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir eru á meðal þeirra sem hafa mótmælt fyrir utan Ráðherrabústaðinn í morgun.

Þar er því mótmælt að ríkisstjórn Íslands hafi ekki enn gert ákall um vopnahlé og ekki beitt sér til að setja pressu á ríkisstjórn Ísraels vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Þrjú þúsund börn myrt

„Því er haldið fram að þetta sé stríð gegn Hamas. Fyrir mér ekki hægt að vera í stríði gegn einhverjum stjórnmálasamtökum og varla líka hernaðararmi þeirra, enda er svo augljóst mál hvað er að gerast núna. Þetta er stríð gegn börnum fyrst og fremst,” segir Sveinn Rúnar.

„Þegar það eru yfir þrjú þúsund börn sem búið er að myrða á þessum síðustu dögum og yfir sjö þúsund manns. Netanjahú [forsætisráðherra Ísraels] og hershöfðingjarnir segja „Þetta er bara byrjunin”,” bætir hann við.

Fram kemur í tölum frá heilbrigðisráðuneytinu sem Hamas rekur á Gasasvæðinu að að minnsta kosti 7.028 manns hafi fallið á Gasasvæðinu, aðallega almennir borgarar, þar á meðal 2.913 börn. AFP-fréttastofan greindi frá þessu í morgun.

mbl.is/Hákon

Eiga að fordæma strax og skýrt

Ilmur segir að ríkisstjórnin eigi að fordæma aðgerðir Ísraelsmanna á Gasasvæðinu.

„Mér finnst að íslensk stjórnvöld eigi að fordæma þetta strax og mjög skýrt. Evrópusambandið er lamað og Sameinuðu þjóðirnar eru búnar að fordæma þetta. Það er alveg skýrt hvað er í gangi. Það fer ekkert á milli mála,” segir hún.

Ilmur bætir við að Íslendingar eigi að setja þrýsting á nágrannaþjóðir sínar og þar með á Bandaríkin. Vonandi muni það hafa einhver áhrif inn í Evrópusambandið.

Sveinn Rúnar segir Íslendinga jafnframt bera sérstaka ábyrgð því þeir hafi verið fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert