Zuistabróðir hlýtur þriggja ára dóm

Einar Ágústsson í Héraðsdómi Reykjaness.
Einar Ágústsson í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Styrmir Kári

Landsréttur hefur á ný dæmt Einar Ágústsson, sem hvað þekktastur er fyrir að vera annar bróðirinn á bak við trúfélagið Zuism, í þriggja ára fangelsi fyrir fjársvik með því að hafa haft tugi milljóna af þremur einstaklingum og félögum. Sagðist Einar ætlar að stunda fjárfestingar, en peningana nýtti hann hins vegar í eigin þágu.

Í dómi Landsréttar segir að brot Einars hafi verið umfangsmikil, þaulskipulögð og úthugsuð og brotavilji hans einbeittur. Þá stóðu brot hans yfir í langan tíma og vörðuðu háar upphæðir.

Endurupptaka vegna Landsréttarmálsins

Upphaflega var Einar dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í júní 2017. Hann áfrýjaði málinu til Landsréttar sem stytti dóminn í þrjú ár. Einar fór síðar fram á endurupptöku málsins sem Endurupptökudómur samþykkti og fór málið því aftur fyrir Landsrétt.

Var endurupptakan samþykkt þar sem einn dómari í málinu fyrir Landsrétti hafði verið á meðal þeirra sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði og voru undir í Landsréttarmálinu svokallaða.

Landsréttur komst í dag hins vegar að sömu niðurstöðu og áður, það er að dæma Einar í þriggja ára fangelsi.

Einari er jafnframt gert að greiða tveimur aðilum sem hann hafði haft fé af samtals tæplega 71 milljón auk vaxta.

Í héraðsdómi hafði þrotabúi félagsins Skajaquoda ehf., sem Einar stýrði áður, verið gert að sæta upptöku á 74 milljónum króna sem voru á reikningum þess. Átti þessi upphæð að fara til greiðslu á einkaréttarkröfum þeirra sem Einar hafði haft fé af. Þrotabúið ákvað að áfrýja ekki þessum hluta málsins og stóð hann því áfram.

Ákærður í öðru máli

Þetta er ekki eina dómsmálið sem Einar hefur verið ákærður í á síðustu árum. Hann og bróðir hans, Ágúst Arnar Ágústsson, voru báðir ákærðir í tengslum við rekstur trúfélagsins Zuism. Þeir voru báðir sýknaðir af ákæru um fjársvik og peningaþvætti í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra, en Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Landsréttar þar sem það bíður nú meðferðar.

Bræðurn­ir tveir voru ákærðir fyr­ir að lát­ast reka trú­fé­lag sem upp­fyllti skil­yrði laga um slík fé­lög og svíkja þannig ríf­lega 85 millj­ón­ir króna út úr rík­inu í formi sókn­ar­gjalda. Sömu­leiðis voru þeir ákærðir fyr­ir pen­ingaþvætti á fjár­mun­un­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka