Atkvæðagreiðslan endurspegli afstöðu Íslands

Diljá Mist þykir miður að breytingartillaga Kanada hafi verið felld.
Diljá Mist þykir miður að breytingartillaga Kanada hafi verið felld. Samsett mynd

Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir ekki hægt að gefa afslátt á afstöðu Íslands í því að fordæma hryðjuverk.

Ísland sat hjá er greidd voru at­kvæði um álykt­un um vopna­hlé á Gasa í neyðarumræðu á alls­herj­arþingi Sam­einuðu þjóðanna í gær – ákvörðun sem endurspeglar afstöðu Íslands, að mati Diljár.

„Atkvæðagreiðslan er bæði í samræmi við afstöðu Íslands, annars vegar um að fordæma hryðjuverk en hins vegar að kalla eftir mannúðarhléi og tafarlausri mannúðaraðstoð. Þessi afgreiðsla er sömuleiðis í samræmi við afgreiðslu flestra okkar vina- og nágrannaþjóða,“ segir Diljá Mist í samtali við mbl.is.

Jórdanía lagði fram tillögu í deilu Ísraels og Palestínu sem sneri að mannúðarhlið átakanna. Ekki náðist að ná samstöðu um texta ályktunarinnar sem tók ekki til hryðjuverka Hamas eða gíslatöku þeirra með beinum hætti. Ísland sat hjá í at­kvæðagreiðslunni um tillöguna ásamt 44 öðrum ríkj­um.

„Það er lögð fram þessi tillaga Jórdaníu. Síðan kemur breytingatillaga frá Kanada sem við studdum. Ég held það hafi verið um 90 ríki sem studdu breytingatillögu Kanada sem tók þá til þessara beggja þátta. Bæði að fordæma hryðjuverkin og jafnframt að kalla eftir mannúðarhléi. Sú tillaga var því miður felld og því ákváðu mörg þessara ríkja að sitja hjá en skýra frá afstöðu sinni nánar í atkvæðaskýringu þannig að þessi sjónarmið kæmust örugglega til skila,“ segir Diljá.

Minnir á stuðnings við innrásina í Írak

Alþingismenn stjórnarandstöðunnar hafa margir hverjir gagnrýnt ákvörðun stjórnvalda. Meðal þeirra er Sig­mar Guðmunds­son, þingmaður Viðreisn­ar, sem seg­ir dap­ur­legt að Ísland hafi setið hjá í at­kvæðagreiðslunni. 

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar, segir málið pólitíska hneisu og rifjar upp stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak. 

„Hvaða hagsmuni er verið að verja?,“ spurði Þórunn á Facebook.

Í tilkynningu frá þingflokki Vinstri grænna kemur fram að Ísland hefði átt að greiða at­kvæði með til­lögunni um vopna­hlé á Gasa, þótt breyt­ing­ar­til­laga Kan­ada hafi ekki náð fram að ganga.

Gefa engan afslátt

Diljá Mist er ósammála þeim gagnrýnisröddum sem heyrst hafa.

„Þetta eru tvenn mikilvæg skilaboð inn í þetta hræðilega ástand. Það er ekkert hægt að gefa afslátt í öðru hvoru. Þeir sem eru að velta fyrir sér hagsmunum okkar ættu að velta fyrir sér hvaða hagsmuni líkt þenkjandi ríki sem eru ekki okkar bandamenn eru að verja þegar þeir neita að fordæma hryðjuverk,“ segir Diljá.

Ekki hefur náðst í Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra í dag, en í Facebook-færslu sagði hann miður að ekki hafi náðst samstaða á þinginu um að fordæma hryðjuverk.

„Þetta breytir þó ekki skýrri afstöðu Íslands um tafarlaust mannúðarhlé, að komið verði á friði og byggt á tveggja ríkja lausninni. Ísland gerir skýra kröfu til Ísraels um að farið sé að mannúðarlögum. Fyrir þessu verður áfram talað af fullum þunga. Hvert dauðsfall meðal almennra borgara er einu dauðsfalli of mikið,“ sagði í færslu Bjarna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert