B telur lögreglu fara offari

Sveinn Andri segir lögreglu hafa farið offari í eftirliti á …
Sveinn Andri segir lögreglu hafa farið offari í eftirliti á skemmtistöðum Reykjavíkur. Samsett mynd

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður segir lögreglu hafa farið offari í skemmtistaðaeftirliti í tengslum við skemmtistaðinn B á Bankastræti. Hann segir jafnframt að sýslumannsembættið hafi brotið stjórnsýslureglur. Eigendur B fara fram á bætur vegna afkomumissis sökum sex vikna lokunnar skemmtistaðarins.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur tímabundið afturkallað starfsleyfi skemmtistaðarins B við Bankastræti 5 í Reykjavík. Skemmtistaðurinn verður því lokaður í sex vikur frá og með gærdeginum.

Starfsleyfið var afturkallað í kjölfar tilkynninga frá lögreglu um að þar hafi á tilteknum dögum verið of margir gestir og að meðal gesta hafi verið ungmenni sem ekki hafi haft aldur til að vera inni á staðnum.

„Nýr aðili sem stjórnar þessum aðgerðum“

Sveinn Andri er lögmaður Sverris Einars Eiríkssonar, annars eiganda B. Sveinn Andri segir lögreglu fara offari í eftirliti skemmtistaða. 

„Þarna eru einhverjir nýir menn sem þykjast stjórna og vita betur heldur en fyrirrennarar þeirra gerðu. Þeir vaða inn í skemmtistaðaeftirliti í stórum hópum í einkennisfatnaði sem er algjörlega gegn viðteknum venjum. Þeir náttúrulega trufla alla starfsemi með þessum hætti. Síðan er þarna einhver nýr aðili sem stjórnar þessum aðgerðum lögreglu sem hefur horn í síðu míns umbjóðanda,“ segir Sveinn Andri í samtali við mbl.is.

Sverrir Einar kveðst hafa séð á eftirlitsmyndavélum skemmtistaðarins að lögregla hafi oftalið gestafjölda inni á staðnum, að sögn Sveins Andra.

Hvað varðar ungmenni sem hafa verið inni á skemmtistaðnum segir Sveinn Andri að ekki sé hægt að komast hjá því að einhverjir einstaklingar sem ekki eru með lögaldur sleppi inn.

„Fólk er þarna að framvísa fölsuðum skilríkjum sem getur verið erfitt að þekkja,“ segir Sveinn Andri.

Bótaskylda vegna brota sýslumanns

Sveinn Andri segir að það sé í sjálfu sér óvenjulegt að skemmtistaðnum sé lokað í sex vikur. Eðlilegra hefði verið að loka honum í 1-2 vikur.

„Þarna eru einhverjir sem halda um stjórnvölinn hjá sýslumanni sem kunna hvorki lögin almennilega né stjórnsýsluréttinn,“ segi Sveinn Andri.

Hann segir að ekki hafi verið gætt meðalhófs þegar tilkynnt hafi verið um sviptingu leyfisins, en eðlilegt hefði verið að gefa aðvörun og veita eigendum staðarins tækifæri á að lagfæra það sem betur mætti fara.

„Það er auðvitað alveg hörmulegt að í jafn valdamiklu embætti og sýslumannsembættið er skuli vera einstaklingar sem kunna ekki að fara með valdið og hafa ekki tileinkað sér grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins eins og meðalhófsregluna.

Þessi brot sýslumannsins á stjórnsýslureglum leiðir til þess að þarna verður bótaskylda. Það verður farið í það að reikna út hver afkomumissirinn verður af því að staðurinn verður lokaður í þessar vikur. Það verður auðvitað að sækja það í vasa skattgreiðanda,“ segir Sveinn Andri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert