Dapurlegt að Ísland greiði ekki atkvæði

45 ríki sátu hjá, þar á meðal Ísland.
45 ríki sátu hjá, þar á meðal Ísland. Samsett mynd/Hallur/Andrea Renault

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir dapurlegt að Ísland hafi setið hjá í atkvæðagreiðslu um ályktun um vopnahlé á Gasa í kvöld. Þá sé einnig dapurlegt að þjóðir komi sér ekki saman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að fordæma árás hryðjuverkasamtakanna Hamas á Ísrael.

Sú árás er með því ógeðslegasta sem sést hefur,“ segir hann í færslu á Facebook.

Breytingartillaga ekki samþykkt

Neyðarumræða í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna vegna stríðsátakanna fyrir botni Miðjarðarhafs hófst í gær og var fram haldið í dag að ósk Jórdaníu og Máritaníu, fyrir hönd Arabaríkja og Samtaka íslamskra ríkja.

Undir kvöld voru atkvæði greiddu um ályktun um vopnahlé á Gasa sem Jórdanía, fyrir hönd ríkja Arabahópsins, lagði fram. Ályktunin var samþykkt með 120 atkvæðum gegn 14. 45 ríki sátu hjá, þar á meðal Ísland.

Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins í kvöld segir að Ísland hefði greitt atkvæði með ályktuninni hefði breytingartillaga Kanada náð fram að ganga. Í henni var kveðið á um grimmdarverk Hamas.

Hryðjuverk réttlæta ekki morð

Við eigum að standa með óbreyttum borgurum í Palestínu og Ísrael en gagnrýna harkalega stjórnvöld í báðum löndum fyrir að kalla manndráp og aðrar hörmungar í sífellu yfir konur, börn og gamalmenni. Í áratugi hefur grimmdarverkum verið svarað með grimmdarverkum,“ segir í færslu Sigmars á Facebook.

Tekur hann fram að vítahringurinn verði enn harkalegri þegar Ísraelsher verður búinn að valta yfir Gasa.

„Hryðjuverk Hamas réttlæta ekki morð á þúsundum óbreyttra borgara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert