Geggjað að spila með landsliðinu

Atvinnumaðurinn Sveindís Jane er nú orðin barnabókahöfundur.
Atvinnumaðurinn Sveindís Jane er nú orðin barnabókahöfundur. mbl.is/Ásdís

Ein af okkar fremstu fótboltakonum, Sveindís Jane Jónsdóttir, var stödd á landinu í síðasta mánuði og gaf sér tíma til að hitta blaðamann, en hún er nú ekki einungis atvinnumaður í fótbolta, heldur einnig glænýr barnabókahöfundur.

Sveindís býr nú í Þýskalandi og spilar með Vfl Wolfsburg, sem er eitt besta lið Evrópu og vann þýska bikarinn í ár. Hún er einnig lykilmanneskja í íslenska landsliðinu. Á milli æfinga síðastliðið ár gaf Sveindís sér tíma til að skrifa barnabók í samstarfi við útgefanda sinn, Sæmund Norðfjörð.

Í bókinni segir hún frá því hvernig hún varð fótboltastelpa, en bókin heitir einfaldlega Sveindís Jane – saga af stelpu í fótbolta. Útgáfuhátíð bókarinnar verður um helgina og telur Sveindís hana geta verið hvatningu fyrir litlar stelpur og stráka að fara að æfa fótbolta.

„Bókin er fyrir yngri krakka og er auðveld að lesa,“ segir Sveindís og segir söguna að hluta til byggða á eigin lífi en aðeins er kryddað með skáldskap. En hver er saga þessarar mögnuðu ungu konu?

Amma frá Gana hét Jane

Sveindís er fædd og uppalin í Keflavík, dóttir hjónanna Jóns Sveinssonar og Eunice Quason og er hún eina barn þeirra. Sveindís á fimm eldri hálfsystkini, en er langyngst.

„Mamma mín er frá Gana og kom hingað árið 2000, ári áður en ég fæddist,“ segir Sveindís og segist aðeins einu sinni hafa farið til Gana.

„Ég fór þegar ég var sex ára en svo næstu tíu árin fóru foreldrar mínir ekki og eftir það komst ég aldrei með út af fótboltanum,“ segir hún, en Sveindís á þar að vonum fjölda ættingja.

„Mamma segist hafa verið í fótbolta, en þar var ekki talið að stelpur ættu að vera í fótbolta. Hún var alltaf að stelast til að spila og stundum þóttist hún vera strákur til að fá að vera með,“ segir Sveindís.

„Mig langar svo að fara þangað í heimsókn en er svo upptekin í fótboltanum. Amma og afi í Gana eru bæði látin en ég fékk að hitta ömmu einu sinni, en hún hét einmitt Jane,“ segir Sveindís, en fjallað er um afa hennar í bókinni þar sem hann er sagður eins konar höfðingi í þorpi sínu.

„Það er sannleikur í þessu en samt aðeins skáldað,“ segir Sveindís og brosir.

Hér sýnir Sveindís Jane Jónsdóttir takta í leik gegn Kýpur …
Hér sýnir Sveindís Jane Jónsdóttir takta í leik gegn Kýpur árið 2021 en þar skoraði hún tvö mörk í 5-0-sigri. mbl.is/Unnur Karen

Flutti út nítján ára

Fyrsta liðið sem Sveindís spilaði með var sameinað lið RKV; Reynir úr Sandgerði, Keflavík og Víðir úr Garðinum. Þegar hún var komin í meistaraflokk spilaði hún með Keflavík.

„Ég var líka síðar í Breiðabliki. Þegar ég var þrettán, fjórtán ára byrjaði ég í landsliðsúrtökum. Það var þá fyrst sem ég hugsaði að mig langaði að vera í landsliðinu. Eftir það var ég í öllum úrtökum og spilaði með unglingalandsliðinu fjórtán eða fimmtán ára. Ég er enn með mörgum af þeim stelpum í landsliðinu þannig að ég hef í raun alist upp með þeim. Okkur gekk alltaf mjög vel í landsliðinu,“ segir Sveindís og segist fljótlega hafa farið að láta sig dreyma um að komast í A-landsliðið og jafnvel í atvinnumennsku.

Sá draumur varð svo að veruleika. Sveindís spilaði sinn fyrsta landsleik með A-landsliðinu árið 2020 og boltinn fór að rúlla.

„Þegar ég var í Keflavík í meistaraflokki féllum við og þá fór ég í Breiðablik að láni. En svo var ég seld frá Keflavík til Wolfsburg í Þýskalandi en var lánuð strax til Svíþjóðar,“ segir Sveindís en hún var þá aðeins nítján ára.

Sveindís veit fátt betra en að spila með íslenska landsliðinu.
Sveindís veit fátt betra en að spila með íslenska landsliðinu. mbl.is/Unnur Karen

Forréttindi að vera í landsliðinu

Hvernig eru dagarnir hjá atvinnumanni í fótbolta?

„Það getur verið svolítið leiðigjarnt ef maður má segja svo,“ segir Sveindís og brosir út í annað.

„Stundum eru tvær æfingar á dag en oftast bara ein og þá hef ég lítið að gera yfir daginn. Æfingin er kannski búin klukkan tvö, en ég á sem betur fer margar vinkonur og þá förum við saman að fá okkur kaffi eða í göngutúra, sérstaklega ef Siggi er ekki hjá mér, en hann er nú í námi heima,“ segir Sveindís, en kærastinn er í íþróttafræði í HR.

„Wolfsburg er mjög lítil borg og hér er Volkswagen-verksmiðja, þannig að flestir hér vinna þar,“ segir hún en athyglisvert er að svo lítill bær státi af einu besta fótboltaliði Evrópu.

„Bókin er fyrir yngri krakka og er auðveld að lesa,“ …
„Bókin er fyrir yngri krakka og er auðveld að lesa,“ segir Sveindís og segir söguna að hluta til byggða á eigin lífi en aðeins er kryddað með skáldskap. mbl.is/Ásdís

„Ég skil það ekki, en liðið er mjög gott. Eitt af þeim bestu í heimi. Volkswagen er styrktaraðili númer eitt, sem hefur kannski eitthvað að segja. Í fyrra lentum við í öðru sæti í Meistaradeild Evrópu sem er keppni fyrir öll bestu lið Evrópu,“ segir Sveindís.

„Það er geggjað að spila með landsliðinu; það er það besta. Eftirminnilegasti leikurinn var þegar við spiluðum gegn Svíþjóð og ég lagði upp markið, en leikurinn fór eitt eitt. Ég fæ alltaf þessa sömu tilfinningu þegar ég spila með landsliðinu,“ segir hún og segist fyllast stolti.

„Þetta eru forréttindi og ekkert sjálfgefið að fá að vera í landsliðinu. Þá finn ég að ég er búin að ná langt.“

Ítarlegt viðtal er við Sveindísi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert