Halda ró sinni á Illahrauni þrátt fyrir landris

HS Orka rekur orkuver á Illahrauni í Svartsengi en landris …
HS Orka rekur orkuver á Illahrauni í Svartsengi en landris hófst í nágreni Svartsengis í gær. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við höldum bara ró okkar, fylgjumst vel með, förum yfir okkar viðbragðsáætlanir en verðum bara að sjá hvað gerist,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, sem rekur orkuver á Illahrauni við Svartsengi – nálægt miðju landrissins sem hófst í gær.

Landrisið bendir til auk­ins þrýst­ings, lík­leg­a vegna kvikuinn­skots. Miðja landriss­ins er nærri Grindavík, Svartsengi Bláa lón­inu, um 1,5 km norðvest­an við Þor­björn og tölu­vert vest­ar en Fagra­dals­fjall. 

Þetta er í fimmta sinn síðan árið 2020 sem landris mæl­ist á þessu svæði. Þor­valdur Þórðar­son­ eld­fjalla­fræðingur sagði við mbl.is fyrr í dag að það kæmi ekki á óvart ef grípa þyrfti til rým­inga þar.

Svartsengi er nálægt miðju landrissins.
Svartsengi er nálægt miðju landrissins. Ljósmynd/Mannvit hf

Mjög tengd almannavörnum

„Við erum bara mjög tengd almannavörnum og fylgjumst mjög grannt með því sem er að gerast. Við getum lítið annað gert en að hegða okkur í samræmi við það sem þau leggja til,“ segir Tómas í samtali við mbl.is.

„Þetta er bara eins og það hefur verið síðan jarðhræringar hófust í upphafi árs 2020 og þetta líkist því sem gerðist þegar allt fór af stað á sínum tíma. Auðvitað verðum við að vera viðbúin ef eitthvað kemur upp en þangað til verðum við bara að halda ró okkar.“

Hafið þið einhverjar áhyggjur af því að kvika komist inn í borholukerfið?

„Á þessum tíma sem liðinn er síðan þessar jarðhræringar hófust hefur það aldrei gerst og við höfum ekki fundið neinar verulegar breytingar í kerfinu,“ svarar Tómas, en bætir þó við að örlítil breyting hafi mælst í Svartsengi í jarðhræringunum árið 2020, sem hafi gengið til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert