Ísland hefði átt að greiða atkvæði með tillögunni

Orri Páll Jóhannsson er formaður þingflokks Vinstri grænna.
Orri Páll Jóhannsson er formaður þingflokks Vinstri grænna. mbl.is/Hákon

Þingflokkur Vinstri grænna telur að Ísland hefði átt að greiða atkvæði með tillögu um vopna­hlé á Gasa, þótt breytingartillaga Kanada hafi ekki náð fram að ganga, en fastanefnd Íslands sat hjá í atkvæðagreiðslunni. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokknum en atkvæðagreiðsla um ályktun Jórdaníu fór fram á alls­herj­arþingi Sam­einuðu þjóðanna í gærkvöldi. Ályktunin var samþykkt með 120 atkvæðum gegn 14. 44 ríki sátu hjá, þar á meðal Ísland. 

Þingflokkur VG telur að rétt hefði verið að styðja tillöguna sjálfa vegna umfangs mannúðarkrísunnar á Gasasvæðinu. 

„Þingflokkurinn tekur undir efni tillögunnar sem er í samræmi við málflutning íslenskra stjórnvalda.“

Fordæma árásir

Í tilkynningu Stjórnarráðsins í gærkvöldi sagði að Ísland legði áherslu á mannúðarhlé til að tryggja tafarlausa mannúðaraðstoð, harmaði gríðarlegt mannfall óbreyttra borgara og ítrekaði að þá yrði að vernda.

Þingflokkur Vinstri grænna fordæmi árásir og morð á almennum borgurum skilyrðislaust, hvar sem er í heiminum.

„Rétt eins og allsherjarþingið samþykkti krefst þingflokkur VG þess að farið sé skilyrðislaust eftir alþjóðlegum mannréttindalögum, að almennum borgurum sem haldið er í gíslingu verði skilyrðislaust sleppt og leið lífsnauðsynja verði greidd inn á Gaza tafarlaust. Fyrir því eiga íslensk stjórnvöld áfram að tala.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert