Land rís mun hraðar en áður

Aflögun á svæðinu frá 26. október til 28. október.
Aflögun á svæðinu frá 26. október til 28. október. Kort/Veðurstofa Íslands

„Það sem er ólíkt er hraðinn, hversu hratt landið er að rísa,“ segir Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu en þetta er í fimmta sinn sem landris mælist norðvestan við Þorbjörn á Reykjanesskaga síðan árið 2020. 

Í fyrri tíð hafi tekið landið um tvær vikur að rísa um þrjá sentimetra, sem að þessu sinni tók 24 klukkustundir. Enginn órói mælist þó á svæðinu.

„Það er áfram jarðskjálftahrina á svæðinu þó dregið hafi úr styrk skjálftana. Það er enn töluvert af skjálftum að mælast og við erum enn þá inni í þessari atburðarás, sem virðist vera hratt landris þarna í Svartsengi,“ segir Einar en Svartsengi sér Suðurnesjamönnum fyrir heitu vatni.

Bæði HS Orka og Bláa Lónið reka starfsemi á Svartsengi, …
Bæði HS Orka og Bláa Lónið reka starfsemi á Svartsengi, þar sem landris mælist. mbl.is/RAX

Kvikan á nokkru dýpi en færist nær yfirborði

„Við gerum allt eins ráð fyrir að það bæti aftur í skjálftavirknina,“ segir Einar en vísindamenn bíða nýrra gervitunglagagna, sem verða aðgengileg annað kvöld en túlkun á þeim verður birt á mánudag. Munu þau sýna fram á dýpi og stærð kvikuinnskotsins.

„Þá kannski sjáum við betur hver framvindan verður á svæðinu. Eins og er sjáum við að kvika er að safnast á miklu dýpi en er að færast nær yfirborði.“

Sprunguhreyfingar vegna gikkskjálfta nærri og austan Svartsengis gætu mögulega gert kvikunni kleift að færast grynnra í skorpunni. Kvikan er þó enn talin vera á nokkru dýpi. Ekkert bendi til þess að gos sé að hefjast á þessum tímapunkti en ef svo yrði gerir Einar ráð fyrir að það verði hraungos, líkt og í Fagradalsfjalli.

„Við fylgjumst enn vel með framvindunni,“ segir hann í lokin.

Yfir 7.000 jarðskjálftar hafa mælst í jarðskjálftahrinu sem hófst 25. október norðan við Grindavík. Hrinan stendur enn yfir þótt aðeins hafi dregið úr virkninni en þrátt fyrir það eru enn líkur á að jarðskjálftar finnist á svæðinu að því er segir í tilkynningu Veðurstofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert