Milljarða munur á jafnlöngum brúm

Þorskafjarðarbrú var vígð í vikunni og kostaði rúma tvo milljarða …
Þorskafjarðarbrú var vígð í vikunni og kostaði rúma tvo milljarða króna. Morgunblaðið/Guðlaugur Albertsson

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins velti því upp í ræðu á Alþingi hvort tvær brýr sem stendur til að byggja væru ekki allt of dýrar.

„Mig langar að gera samgöngumál að umtalsefni og byrja á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins,“ sagði Jón í umræðum um störf þingsins á miðvikudag.

Jón sagði að til stæði á næstu vikum eða mánuðum að bjóða út nýja brú yfir Fossvog. Áætlaður kostnaður væri í kringum átta milljarðar króna fyrir 260 metra brú sem er byggð sem einhvers konar listaverk. Til samanburðar mætti nefna að á miðvikudaginn hefði verið vígð ný brú yfir Þorskafjörð, sem er um 260 metra löng og til viðbótar 2,7 kílómetra vegakaflar að brúnni auk grjótgarða. Heildarkostnaður við þessa brú og öll þessi mannvirki í kringum hana væri um tveir milljarðar.

„Sambærileg brú í Kópavogi eða í Fossvogi átta milljarðar. Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um það hvort það er verið að fara allt of dýrar leiðir og þingið hlýtur að þurfa að grípa til ráðstafana þannig að þetta verði skoðað ítarlega,“ sagði Jón. Ölfusárbrú væri annað dæmi, 10 milljarða framkvæmd, hálfgert listaverk.

Áætlað er að Fossvogsbrúin muni kosta átta milljarða króna.
Áætlað er að Fossvogsbrúin muni kosta átta milljarða króna. Teikning/Efla og BEAM

Loks sagði Jón að það hefði vakið athygli að á þriðjudag hefðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um ljósastýringarmál í forgang. Því var hafnað af Reykjavíkurborg.

„Þetta er þó forgangsatriði samgöngusáttmálans þegar þingið afgreiddi hann hér úr þinginu. Svo er þessu hafnað núna af einum aðalaðila samgöngusáttmálans, Reykjavíkurborg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert