„Stefán verður með okkur í anda“

Karlakórinn Heimir á tónleikum í Hörpu fyrir nokkrum árum, undir …
Karlakórinn Heimir á tónleikum í Hörpu fyrir nokkrum árum, undir stjórn Stefáns R. Gíslasonar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stefán verður án nokkurs vafa með okkur í anda og við munum gera okkar allra besta til að halda uppi gleðinni þrátt fyrir allt,“ segir söngvarinn Óskar Pétursson frá Álftagerði, sem heldur tvenna tónleika í Eldborgarsal Hörpu í dag og kvöld.

Kær vinur Óskars og samstarfsmaður í tónlistinni til margra ára, Stefán R. Gíslason kórstjóri, varð bráðkvaddur 17. október síðastliðinn, rétt að verða 69 ára. Fáum dögum áður hafði hann stjórnað Heimismönnum á afmælistónleikum Óskars í Miðgarði og síðan á þrennum tónleikum í Hofi á Akureyri. Síðustu tónleikarnir áttu að vera í Hörpu í dag og Óskar segir það hafa verið sameiginlegan vilja allra að klára verkefnið, hvort sem það voru kórmenn, tónleikahaldarar eða fjölskylda Stefáns. Allir hefðu verið sammála um að sýna minningu Stefáns virðingu með þessum hætti.

„Þetta er búin að vera brött brekka síðustu daga og mikið högg fyrir alla. Hefði ég heyrt minnstu efaraddir um að halda áfram, þá hefðum við látið staðar numið,“ segir Óskar við Morgunblaðið.

Óskar Pétursson á æfingu í Miðgarði skömmu fyrir fyrstu afmælistónleikana …
Óskar Pétursson á æfingu í Miðgarði skömmu fyrir fyrstu afmælistónleikana og Stefán við stjórnvölinn hjá Heimismönnum. Ljósmynd/Gunnhildur Gísladóttir

Sungið fyrir fullu húsi

Tilefni tónleikanna er 70 ára afmæli Óskars síðar á árinu en hann á að baki langan og farsælan feril sem söngvari, bæði með bræðrum sínum frá Álftagerði, einn og sér og með Karlakórnum Heimi, Karlakór Akureyrar, Karlakór Reykjavíkur og fleira tónlistarfólki gegnum tíðina. Fullt hús hefur verið á flestum tónleikum og hið sama er að segja með Hörpu í dag. Óskar segir aðsóknina hafa farið fram úr sínum björtustu vonum.

Með honum syngja bræður hans, Pétur og Gísli Péturssynir, Guðrún Gunnarsdóttir, Ívar Helgason og Karlakórinn Heimir. Hljómsveit og kór stjórna þeir Valmar Väljaots og Eyþór Ingi Jónsson, og Valmar leikur undir með Heimismönnum. Söngskráin er fjölbreytt og henni ætlað að spanna feril Óskars í tali og tónum.

Stefán var sannur máttarstólpi í tónlistarlífi Skagfirðinga undanfarna áratugi, bæði sem tónlistarkennari, organisti, söngstjóri og kórstjóri. Stjórnaði Heimi í nærri 40 ár og Álftagerðisbræðrum í álíka langan tíma, ásamt því að útsetja fyrir þá lögin. Svo náið samstarf var milli bræðranna og Stefáns að stundum var talað um hann sem „fimmta Álftagerðisbróðurinn“.

Stefán var aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Skagafjarðar og organisti í Glaumbæjarprestakalli til fjölda ára. Hann hlaut Samfélagsverðlaun Skagafjarðar árið 2021 og fálkaorðuna árið 2015 fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á landsbyggðinni. Einnig lék hann í danshljómsveitum á sínum yngri árum.

Samfélagið lamað

Atli Gunnar Arnórsson, formaður Karlakórsins Heimis, segir samfélagið í Skagafirði allt lamað, enda hafi Stefán snert líf margra gegnum sín störf og menningarlíf Skagfirðinga verði ekki samt á eftir. Atli Gunnar tekur undir með Óskari að það hafi verið vilji allra að halda áfram og ljúka áður auglýstri dagskrá. Kórinn sé reyndar ekki í aðahlutverki, þetta séu afmælistónleikar Óskars fyrst og fremst, en það hafi verið í anda Stefáns að hætta ekki í miðjum klíðum, þó ákvörðunin hafi vissulega ekki verið auðveld fyrir kórfélaga.

„Hugarfar Stefáns var alltaf að halda verkefnunum áfram. Uppgjöf var eitthvað sem ekki var til í hans orðabók. Þess vegna viljum við halda áfram. Við vorum ekki undir neinum þrýstingi tónleikahaldara eða annarra við okkar ákvörðun. Við fundum bara þörfina til að klára þetta, í anda Stefáns,“ segir Atli Gunnar.

Kórinn hóf undirbúning fyrir tónleikana strax í vor, undir stjórn Stefáns. Viðtökur voru mjög góðar í Miðgarði og Hofi og Atli Gunnar á ekki von á öðru í Hörpu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert