Sverrir Einar Eiríksson, einn af tveimur eigendum skemmtistaðarins B, segir að 15 lögreglumenn hafi mætt fyrir utan skemmtistaðinn það kvöld sem hann var handtekinn.
Sverrir birti færslu á Facebook með í kvöld ásamt skjáskoti úr myndbandi sem virðist hafa verið tekið á öryggismyndavél skemmtistaðarins aðfaranótt sunnudagsins 17. september – sömu nótt og Sverrir var handtekinn.
Í skjáskotinu má sjá að grúi lögreglumanna hafi haft afskipti af skemmtistaðnum þetta kvöld. Sverrir segir að lögreglumennirnir hafi verið 15 talsins og að tvö sautján ára ungmenni hafi fundist inni á staðnum.
„Það er magnað að það þurfi 15 manna sveit lögreglumanna til að sannfæra mig um að þeir þurfi enga heimild til að storma í fullum skrúða inn á veitingastað til að athuga með aldur ungmenna, niðurstaðan af þessari aðgerð var sú að lögreglan fann 2 sautján ára ungmenni,“ skrifar Sverrir Einar á Facebook.
„Næst þegar fulltrúi lögreglunnar birtist með tárin í augunum í fjölmiðlum og kvartar undan manneklu eða íþyngjandi reglum um störf lögreglunnar þá er gott að hafa þessa mynd í huga.“
mbl.is greindi frá því í gær að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefði tímabundið afturkallað starfsleyfi skemmtistaðarins B við Bankastræti 5. Skemmtistaðurinn verður því lokaður í sex vikur frá og með gærdeginum.
Eigendurnir hafa sagst munu krefja ríkið um skaðabætur.
Uppfært kl. 23.31:
Sverrir Einar segir í samtali við mbl.is að hann hefði samið við lögreglumennina fyrir utan staðinn um að aðeins fjórir þeirra fengju að ganga þar inn. Þrátt fyrir það hafi meirihluti lögreglumannanna síðan ruðst inn á staðinn í fullum skrúða.
Hann segir að lögreglan haldi því fram að Sverrir hefði truflað lögregluaðgerðir og þess vegna verið handtekinn – fullyrðingar sem Sverrir segir vera kolrangar. Handtakan var „ólögleg“ og „með öllu tilefnislaus“, að sögn Sverris.