„Til þess að stjórnsýslustörf kirkjunnar séu hafin yfir allan vafa ályktar kirkjuþing að vígslubiskupar fari með allar stjórnsýslulegar ákvarðanir biskupsembættisins sem lögfylgjur kunna að hafa þar til nýr biskup hefur tekið við embætti,“ segir í ályktun kirkjuþings sem samþykkt var eftir nokkur átök á þinginu undir kvöld í gær.
Í samþykktinni segir að sem hirðir hirðanna fari frú Agnes M. Sigurðardóttir með biskupsþjónustu í þjóðkirkjunni fram að hvítasunnu 2024. Í því felst að hún hefur fram að þeim tíma tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu hennar í landinu ásamt því að gæta einingar kirkjunnar skv. gildandi lögum um þjóðkirkjuna. „Kirkjuþing lýsir yfir fullum stuðningi við biskup til allra þeirra mikilvægu verka,“ segir þar ennfremur.
Þetta var sameiginleg tillaga þeirra Óskars Magnússonar kirkjuþingsfulltrúa og Bryndísar Möllu Elídóttur prófasts og var hún samþykkt með 21 atkvæði gegn tveimur, en tveir seðlar voru auðir í skriflegri kosningu. Jafnframt var samþykkt að aðeins ein umræða færi fram um málið, en jafnan eru slíkar tillögur ræddar í tveimur. Niðurstaðan er því endanleg. Fulltrúar á kirkjuþingi eru 29.
Með þessum hætti bregst kirkjuþing við úrskurði úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar um að Agnesi biskup hafi skort umboð til að taka stjórnsýsluákvarðanir fyrir hönd kirkjunnar eftir að skipunartíma hennar lauk 30. júní 2022.
Tillagan var málamiðlun eftir að óvænt kom fram tillaga á þinginu um að biskup sinnti áfram starfi sínu eins og ekkert hefði í skorist, þrátt fyrir úrskurð um umboðsleysi.