„Ákaflega glaður“ með niðurstöðuna

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.
Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps. Samsett mynd/mbl.is/Guðlaugur

„Ég er bara ákaflega glaður að þetta skuli vera niðurstaðan af því að með þessu myndast hér sterkt sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum,“ segir Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps, inntur eftir viðbrögðum við niðurstöðum kosninga um sameiningu hreppsins og Vesturbyggðar. 

Íbúar í Tálknafjarðarhreppi samþykktu tillöguna með 96% atkvæða. Atkvæði féllu þannig að 139 greiddu atkvæði með sameiningu en fimm greiddu atkvæði gegn sameiningu. Auðir og ógildir atkvæðaseðlar voru einn. Kjörsókn var 78,1%.

Íbúar í Vesturbyggð samþykktu tillöguna með 82% atkvæða. Atkvæði féllu þannig að 364 greiddu atkvæði með sameiningu en 73 greiddu atkvæði gegn sameiningu. Auðir og ógildir atkvæðaseðlar voru fjórir. Kjörsókn var 52,48%.

Ólafur segir í samtali við mbl.is að sameiginlegt sveitarfélag geti barist fyrir hagsmunum þessa svæðis, „því það er sannarlega þörf fyrir því að við hér á sunnanverðum Vestfjörðum eigum sterka rödd af því að hér er sterkt samfélag“. 

Var stuðningurinn meiri en þú bjóst við?

„Já, ég verð að viðurkenna það. Ég bjóst við að þetta yrði tvísýnna, en ákaflega ánægjulegt að stuðningurinn var svona eindreginn við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert