Heldur hefur dregið úr jarðskjálftavirkni norðan Grindavíkur á síðastliðnum sólarhring og ekki eru sjáanlegar breytingar á dýpi skjálfta.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands en nýjustu gögn frá GPS mælaneti Veðurstofunnar umhverfis Þorbjörn og Svartsengi, staðfesta að landris sem hófst 27. oktober heldur áfram.
Þenslan er hraðari en í fyrri atburðum á svipuðu svæði 2020 og 2022.
„Rétt er að vara við því að á meðan að landrisi stendur yfir, getur jarðskjálftavirkni tekið sig upp aftur, með jarðskjálftum sem fólk finnur vel fyrir,“ segir í tilkynningunni.
Búist er við nýjum gervihnattagögnum síðar í dag og þá verður reynt að vinna úr þeim gögnum eins fljótt og auðið er.
Þá segir að gagnaúrvinnsla bylgjuvíxlmynda muni hjálpa til við að greina betur umfang virkninnar undanfarna 12 daga. Á morgun er búist við að niðurstaða þeirrar greiningar liggi fyrir.
„Margþætt ferli kvikuhreyfinga stendur yfir á Reykjanesskaga, túlkun á aflögunar- og skjálftagögnum benda til þess að kvikusöfnun á dýpi sé á nokkrum afmörkuðum svæðunum sem hafa viðtæk áhrif á skaganum öllum.“