Ekkert samráð við forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að Ísland hefði átt að greiða at­kvæði með ályktun Jórdaníu um vopna­hlé á Gasa.  Þetta sagði forsætisráðherra í viðtali í kvöldfréttum Rúv.

Ísland, auk 44 annarra ríkja, sat hjá er greidd voru at­kvæði um álykt­unina í neyðar­um­ræðu á alls­herj­arþingi Sam­einuðu þjóðanna (SÞ) fyrir helgi. Utanríkisráðuneytið hefur sagt að Ísland hefði stutt álykt­un­ina ef breyt­ing­ar­til­laga Kan­ada, sem tók til grimmd­ar­verka Ham­as, hefði náð fram að ganga.

Ákvörðun ekki tekin í samráði við forsætisráðherra

Katrín sagði við Rúv að ekki hefði verið haft samráð við sig áður en fastanefnd tók þá ákvörðun að Íslands sæti hjá í atkvæðagreiðslunni.

„Það var nú ekki neitt samráð haft við mig en hins vegar lá fyrir að afstaða Íslands var alveg skýr fyrir atkvæðagreiðsluna. Hún er sú að við styðjum vopnahlé af mannúðarástæðum. Við teljum mjög brýnt að átökin verði stöðvuð, það skapist líka færi til að koma hjálpargögnum og neyðarbirgðum inn á svæðið,“ sagði hún.

Katrín sagði aftur á móti að afstaða sín og Vinstri grænna sé að „mannúðarkrísan á þessu svæði sé slík að það hefði verið rétt í raun og veru að styðja tillöguna, einfaldlega vegna þess að ástandið er gríðarlega alvarlegt“.

Sagði hún það vonbrigði að ekki hafi náðst breiðari samstaða á vettvangi SÞ „um nálgun á þessi mál“.

Engin aukin spenna í ríkisstjórnarsamstarfinu

Segist hún hafa rætt við samstarfsfólk sitt í ríkisstjórninni, þar á meðal Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra, í kjölfar þess að þing­flokk­ur Vinstri grænna lýsti því yfir að hann teldi að Ísland hefði frekar átt að greiða at­kvæði með til­lögunni.

Spurð af blaðamanni Rúv hvort hún telji hjásetu Íslendinga setja aukna spennu á ríkisstjórnarsamstarfið svarar hún neitandi.

„Um grundvallaratriði erum við sammála og það er okkar stefna Íslendinga. Við höfum viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki. Við tölum alltaf fyrir tveggja ríkja lausn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka