Hrinan sennilega að „deyja út“ en ný gæti hafist

Landris mælist á Reykjanesi nálægt Þorbirni við Grindavík. Bláa lónið …
Landris mælist á Reykjanesi nálægt Þorbirni við Grindavík. Bláa lónið og Svartsengi eru þar í næsta nágrenni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, sér­fræðing­ur Veður­stof­unn­ar í jarðskorpu­hreyf­ing­um, segir að jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga sé líklega að „deyja út“ en það útiloki ekki að ný hrina fari af stað.

Um átta þúsund jarðskjálft­ar hafa mælst á Reykja­nesskaga frá því að skjálfta­hrina hófst norðan við Grinda­vík 25. októ­ber. Virkn­in hef­ur farið dvín­andi og ekki hef­ur mælst skjálfti yfir þrem­ur að stærð í tvo sól­ar­hringa.

„Það segir okkur kannski að hrinan sem er í gangi er að deyja út núna en við getum átt von á nýrri hrinu ef þenslan heldur áfram. Þá fáum við væntanlega aðra hrinu þarna eða annars staðar í kring,“ segir Benedikt sem varar sig á öllum fullyrðingum og bendir einnig á að það sé ávallt ákveðin óvissa í túlkunum á jarðhræringum.

Landrisið „það hraðasta sem við höfum séð“ á svæðinu

Landris hófst á föstudag nærri Svartsengi og virðist landið rísa mun hraðar en áður. Er þetta í fimmta sinn sem landris mæl­ist norðvest­an við Þor­björn á Reykja­nesskaga síðan árið 2020.

Á fyrri tíð hefur það tekið landið um tvær vik­ur að rísa um þrjá senti­metra, sem að þessu sinni tók 24 klukku­stund­ir. Eng­inn órói mæl­ist þó á svæðinu. Benedikt segir að skjálftahrinan hafi sennilega greitt veg fyrir kvikuinnskotið sem leitt hefur til landrissins norðan Þorbjarnar.

„Þetta er talsvert hraðara en við höfum séð áður. Þetta er það hraðasta sem við höfum séð hingað til [á þessu svæði],“ segir hann. „Það þýðir væntanlega að það sé meira flæði inn en við getum svo sem ekkert sagt meira um það.“

Ekki von á eldgosi á næstu dögum

Benedikt bendir einnig á að engin merki séu um það að kvikan leiti upp á yfirborðið í augnablikinu „en við vitum ekkert hvernig það þróast.“

„Það eru engin mælanleg merki um að kvika sé á leið til yfirborðs akkúrat þessa stundina, þetta virðist fyrst og fremst vera að safnast fyrir á dýpi,“ segir Benedikt.

Því segir hann aðspurður að það séu ekki miklar líkur á eldgosi á næstu sólarhringum.

„Hlutir geta alveg gerst hratt en miðað við hvernig þetta hefur hagað sér undanfarin ár … þá geri ég ekki ráð fyrir að það sé að fara að gjósa þarna fyrirvaralaust. Það ætti að vera einhver meiri aðdragandi að því en þessi. En við getum að sjálfsögðu ekki útilokað neitt,“ segir Benedikt.

Hann bætir þó við að sú sviðsmynd sé uppi að jarðhræringarnar geti endað í eldgosi, þó ekki sé hægt að fullyrða hverjar líkurnar á því séu.

Beðið eftir frekari gögnum

Sérfræðingar eiga von á nýjum gervihnattamyndum síðar í dag og myndu þá frekari upplýsingar um kvikuvirknina liggja fyrir á morgun.

Nærri miðju landrissins eru Grindavík, Bláa lónið, og orkuverið í Svartsengi. Einn af framkvæmdastjórum Bláa lónsins sagði við mbl.is fyrr í dag að lónið legði áherslu á að halda starfs­fólki fyr­ir­tæk­is­ins vel upp­lýstu um stöðu mála.

For­stjóri HS Orku, sem rek­ur orku­verið í Svartsengi, sagði við mbl.is í gær að grannt væri fylgst með þróuninni.

Bæj­ar­stjóri Grinda­víkur seg­ir að landris á Suður­nesj­um sé vaktað eins vel og hægt er. Ef dreg­ur til frek­ari tíðinda tek­ur til starfa viðbragðsteymi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert