Oddur Freyr Þorsteinsson, kynningar- og fjölmiðlafulltrúi Rauða krossins, segir starfmenn Hjálparsímans hafa tekið eftir töluverðri fjölgun á samtölum vegna sjálfsvígshugsana á síðastliðnum árum. 928 símtöl bárust þeim árið 2021. Í fyrra voru þau 1.635 talsins.
„Við getum ekki svarað því hvers vegna þessi aukning er, hvort það er vegna þess að fólk á auðveldara með að leita sér aðstoðar eða vegna aukningar á vanlíðan í samfélaginu,“ segir Oddur.
Það sem af er ári hafa 1.148 símtöl borist Hjálparsímanum. Það eru aðeins fleiri en bárust allt árið 2020, þá bárust 1.139 símtöl. Ómögulegt er þó að segja hvort fleiri eða færri samtöl verði í ár en í fyrra. Oddur tekur þó fram að fjöldi samtala endurspegli ekki endilega fjölda þeirra sem hafa samband.
Oddur útskýrir að sjálfsvígshugsanir geti verið á breiðum skala. Sjálfsvígssímtöl geti verið allt frá óljósum tilfinningum og hugsunum yfir í alvarlegar sjálfsvígshótanir eða sjálfsskaða.
Hann segir slíkar hugsanir þó alltaf vera merki um mikla vanlíðan og það að einstaklingur þurfi á aðstoð frá fagaðila að halda. Hann segir starfsmenn verða vara við það að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu sé ekki nægilega gott. Fólk þurfi oft að bíða mjög lengi eftir aðstoð. Það verði ósjaldan til þess að fólk leiti til þeirra.
Oddur segir mikilvægt að þjónusta eins og sú sem Hjálparsíminn býður upp á sé til staðar, „svo að fólk hafi einhvern stuðning sem það getur leitað í.“ Hann segir starfsfólk Hjálparsímans hafa það á tilfinningunni að samtöl séu almennt þyngri og meiri vanlíðanar gæti hjá mörgum.
Einar Hrafn Stefánsson, markaðs- og kynningarstjóri Píeta samtakanna, segir að eins og er sé árið í ár nokkuð svipað síðasta ári hvað varðar fjölda fólks sem til samtakanna leitar. Hann tekur þó fram að þjónustuþörfin komi í bylgjum.
„Við finnum að það er fólk sem þarf á þjónustunni að halda og er ekki að leita til okkar.“ Einar nefnir þar sem dæmi karlmenn á miðjum aldri. Þeir leiti ekki til þeirra í nógu ríkum mæli. „Konur og yngri karlar eru opnari fyrir því að leita sér hjálpar,“ segir hann.
Píeta samtökin opnuðu í vikunni Píetaskjól á Ísafirði. Áður hafði slíkum athvörfum verið komið á fót á Húsavík og Akureyri auk höfuðstöðvanna í Reykjavík. Einar segir samtökin finna fyrir mikilli þörf á landsbyggðinni. Hann segir stefnu þeirra að opna Píetaskjól í öllum landshlutum og að verða sem aðgengilegust sem víðast.
Samtökin veita fjarviðtöl fyrir þá sem ekki hafa möguleika á að koma í hús. „En við viljum að sjálfsögðu geta verið með starfsemi þar sem flestir geta mætt og fengið meðferð í eigin persónu.“
Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píeta-samtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.