Merki um að vera tilbúin

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, fylgist vel með stöðu mála varðandi …
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, fylgist vel með stöðu mála varðandi landris á Suðurnesjum. Samsett mynd

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að landris á Suðurnesjum sé vaktað eins vel og hægt er. Ef dregur til frekari tíðinda þá tekur til starfa viðbragðsteymi. Viðbragðsáætlanir og rýmingaráætlanir eru óbreyttar.

Landris hófst í fyrradag nærri Svartsengi, norðvest­an við Þor­björn á Reykja­nesskaga, nærri Bláa lóninu. Þetta er í fimmta sinn síðan árið 2020 sem landris mæl­ist þar.

„Við auðvitað fylgjumst mjög vel með þessu og treystum okkar færustu vísindamönnum. Við vitum að þetta er eins vel vaktað og hægt er. Ef það dregur til frekari tíðinda erum við látin vita og viðbragðsteymi tekur til starfa,“ segi Fannar í samtali við mbl.is.

Kallar ekki á sérstök viðbrögð

Viðbragðstími gæti verið lítill ef færi að gjósa á Svartsengi, að sögn Þorvaldar Þórðarsonar eldfjallafræðings, og gæti komið til rýmingar í Grindavík.

Fannar segir að það sé ekkert sem kalli á nein sérstök viðbrögð umfram það sem er alltaf í gangi. Viðbragðsáætlanir og rýmingaráætlanir eru í til staðar í Grindavíkurbæ.

„Ríkislögreglustjóri í samvinnu við lögreglustjórann á Suðurnesjum gefur út fyrirmæli um að það sé óvissustig eða hættustig eftir atvikum og þá tekur við annað ferli.

Nú hefur verið óvissustig upp á síðkastið og við vitum hvað það þýðir, það er merki um það að við eigum að vera tilbúin en það gengur ekki lengra en það. Ef ástæða þykir til, þá er lýst yfir öðru viðbragðsstigi,“ segir Fannar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert