Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu Bláa lónsins, segir að mikil áhersla sé á að halda starfsfólki fyrirtækisins vel upplýstu um stöðu mála hverju sinni er varðar jarðhræringar á svæðinu.
Hún segir að innan Bláa lónsins sé vel fylgst með stöðunni varðandi landris á Suðurnesjunum. Landris mældist í gær en Veðurstofa Íslands tilkynnti að miðja þess væri um 1,5 km norðvestan við Þorbjörn, nærri Bláa lóninu.
Helga segir að eins og áður þegar almannavarnir hafi lýst yfir óvissustigi þá sé farið yfir viðbragðsáætlanir fyrirtækisins. Bláa lónið sé í góðu samtali við almannavarnir og sérfræðinga hjá Veðurstofunni.
„Við leggjum mikla áherslu á að upplýsa starfsmenn sem allra mest og þannig gesti,“ segir Helga í samtali við mbl.is.
Spurð að því hvort hún hafi áhyggjur af stöðunni svarar Helga að lítið sé annað að gera en að fylgjast með ástandinu.
„Nú er þetta í fimmta sinn síðan árið 2020 sem landris á sér stað á þessu svæði. Eins og komið hefur fram er sviðsmyndunum að fjölga frekar en hitt.
Það er svo sem ekkert hægt að segja, við bara fylgjumst með og förum að fyrirmælum almannavarna. Eins og staðan er núna er tiltölulega rólegt yfir og búið að vera yfir helgina,“ segir Helga.