Um átta þúsund skjálftar mælst í hrinunni

Grindavík, Bláa Lónið og orkuverið í Svartsengi eru nálgægt miðju …
Grindavík, Bláa Lónið og orkuverið í Svartsengi eru nálgægt miðju landrissins. Ljósmynd/Mannvit hf

Um átta þúsund jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga frá því að skjálfta­hrina hófst norðan við Grinda­vík 25. októ­ber. Virknin hefur farið dvínandi en ekki hefur mælst skjálfti yfir þremur að stærð í tvo sólarhringa.

Þetta segir Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Þetta getur sagt okkur að það sé að hægja á þessu. Það getur líka sagt okkur að mjög mikið af þessum jarðskjálftum voru svar við spennubreytingum sem áttu sér stað við Fagradalsfjall fyrir nokkrum dögum síðan, sem hefur annað hvort hætt eða dregið mjög mikið úr,“ segir Hildur og bendir á að kvikan virðist ekki vera að leita upp.

„Nú er í rauninni bara spurning hvort þenslan við Þorbjörn muni valda annarri jarðskjálftahrinu. Það kemur bara í ljós með tímanum.“

Hún segir að frekari upplýsingar um þróun landhræringanna muni liggja fyrir á morgun, þegar frekari gögn hafa borist Veðurstofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert