Utanríkisráðherra kalli eftir tafarlausu vopnahléi

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata og fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata og fyrsti flutningsmaður tillögunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingflokkur Pírata hyggst leggja fram tillögu á Alþingi þar sem utanríkisráðherra er falið að kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum á Gasa og að ríkisstjórnin fordæmi árásir Ísraelshers á óbreytta borgara og borgaralega innviði Palestínu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokknum og segir að þingmönnum allra flokka var á föstudaginn boðið að vera meðflutningsmenn á tillögunni.

„Standa vonir Pírata til þess að breiður hópur þingfólks geti sameinast um að koma tillögunni sem allra fyrst á dagskrá þingsins og til afgreiðslu í ljósi síversnandi ástands fyrir botni Miðjarðarhafs.“

Afstöðuleysi jafngildir stuðningi

Þá lýsir þingflokkur yfir djúpum vonbrigðum með hjásetu Íslands í atkvæðagreiðslu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um ákall eftir vopnahléi á Gasa.

„Afstöðuleysi gagnvart jafnskelfilegri mannúðarkrísu og nú á sér stað jafngildir stuðningi við framferði Ísraelshers á Gaza og sýnir virðingarleysi gagnvart alþjóðalögum. Þessi sorglega afstaða ríkisstjórnarinnar kallar yfir okkur skömm og er ekki í okkar nafni.“

Þingflokkurinn hvetur þá þingmenn til að gerast meðflutningsmenn á þingsályktunartillögunni.

„Meirihluti Alþingis getur knúið fram rétta afstöðu Íslands á alþjóðavettvangi með samþykkt tillögunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert