Birna Stefánsdóttir hlaut í dag Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handritið Örverpi, sem er hennar fyrsta ljóðabók. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti verðlaunin við athöfn í Höfða síðdegis.
„Það var ekki planið að leggja ljóðlistina fyrir sig en þetta er auðvitað mikill heiður og mikil hvatning til að halda áfram,“ segir Birna í samtali við Morgunblaðið.
Alls bárust 77 óbirt ljóðahandrit í samkeppnina í ár. Handrit eru send inn undir dulnefni og aðeins var umslag með réttu nafni verðlaunahöfundar opnað. Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hefur umsjón með verðlaununum sem hafa verið veitt frá árinu 1994 en árið 2004 var tekin upp sú nýbreytni að veita eingöngu verðlaun fyrir ljóðahandrit. Verðlaunin nema einni milljón króna.
Birna er fædd 1994 í Reykjavík. Hún er með bakgrunn í stjórnmálafræði og útskrifaðist með meistaragráðu í ritlist árið 2023. Hún hefur unnið við blaðamennsku og önnur ritstörf, þar á meðal fyrir útvarp og bókaútgáfur.
Í umsögn dómnefndar segir m.a.:
„Örverpi er kafli í fjölskyldusögu sem er lesendum bæði kunnugur og nýr og lýsir andstreymi sem öll fást við á einn hátt eða annan. [...] Verkið heillar með látleysi sínu. Sagan er sögð í einföldum og hæverskum ljóðlínum meðan undir niðri krauma sterkar tilfinningar. Örverpi er ekki síður athugun á mætti tungumálsins, hversu mörg eða fá orð duga til að endurspegla reynsluheim og vekja skilning viðtakanda. [...] Með stakri stílfimi dregur höfundur upp tregablandna mynd af veröld sem var og þeim veruleika sem hefur tekið við, fjölskylduböndum sem liðast upp, kynslóðabili sem gliðnar. En myndin sýnir ekki síður fegurðina í því þegar okkur tekst að hrista kliðinn af okkur og vera heil í líðandi stund.“
Í dómnefnd sátu Guðrún Sóley Gestsdóttir (formaður), Sigurbjörg Þrastardóttir og Svavar Steinarr Guðmundsson.
Viðtal við Birnu verður að finna á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, þriðjudaginn 31. október.