Þau Elínborg Friðriksdóttir og Tómas Nielsen lentu í þeirri leiðu lífsreynslu að brúðarkjól hennar var stolið í miðri brúðkaupsveislu sem haldin var í tilefni af giftingu þeirra í september síðastliðnum.
Málið var tilkynnt til lögreglu en enn sem komið er hafa engar heimtur verið. „Þegar við höfum verið að tala um þetta hafa fleiri sagt svipaða sögu um stuld úr fermingarveislum og öðru og því máttum við til með að vara fólk við þessu,“ segir Elínborg.
Þau giftu sig þann 9. september. Giftingin var klukkan hálf fimm og svo var veisla í framhaldinu. Um klukkan hálf tólf ákváðu brúðhjónin að stíga sinn fyrsta dans sem gift hjón. Elínborg skipti um kjól áður en dansinn var stiginn og brúðarkjólnum komið fyrir í ólæstu herbergi.
„Maður er alveg saklaus gagnvart þessu. Pakkarnir og gjafirnar fóru inn í læst herbergi en mér datt ekki til hugar að ég þyrfti að læsa brúðarkjólinn inni líka,“ segir Elínborg.
Hún segir að eftir á að hyggja hafi þau hjónin lagt saman tvo og tvo og grunar að stuldurinn hafi verið skipulagður. Þannig hafi maður verið fyrir utan salinn nokkrum dögum áður en veislan fór fram þegar verið var að skreyta hann.
„Sá maður stóð við innganginn. Hann virtist vera villtur og var að tala í símann. Svo í veislunni kom þar maður inn á dansgólf í prímaloft úlpunni sinni og hélt á bjór. Þjónarnir komu strax og spurðu okkur hvort við þekktum hann sem við gerðum ekki. Þá fóru þjónarnir að tala við hann en þá sagði hann: „Ég hélt þetta væri skemmtistaður“ (e. I thought it was a club) áður en honum var vísað út,“ segir Elínborg.
Brúðkaupið var haldið í Hafnarfirði. Bæði staðsetning og umhverfið sem þarna er gefur alls ekki til kynna að um skemmtistað sé að ræða.
Það var þó ekki einungis kjóllinn sem hvarf þetta kvöld heldur voru ilmvatnsglös, sem búið var að koma fyrir á salernum, tekin.
Hjónin hafa talað við tryggingafélag og lögreglu en kjóllinn fæst ekki bættur og laganna verðir eru engu nær um afdrif hans. Kjóllinn kostaði tæplega 200 þúsund krónur en Elínborg segir tilfinningalega gildið vega þyngst.
„Þegar þú ert búin að vera í einhverja átta mánuði að hugsa um einhvern kjól, þá er það aðallega tilfinningalega gildið sem verður fyrir höggi í þessu,“ segir Elínborg.