Egill steinhissa og hvetur til lestrar

Egill Helgason hvetur til þess að fólk lesi bókina áður …
Egill Helgason hvetur til þess að fólk lesi bókina áður en það tjáir sig. Samsett mynd

Egill Helgason, stjórnandi Kiljunnar, hvetur til þess að fólk kynni sér mál séra Friðriks Friðrikssonar betur áður en það tjáir sig og stökkvi fram með tal um að „alltaf hafi verið orðrómur“.

Egill segir lestur bókar Guðmunds Magnússonar, Séra Friðrik og drengirnir hans, vera ákveðna forsendu á þessu stigi málsins.

Ræddi Egill við Guðmund um bókina í Kiljunni í síðustu viku. Í bókinni varpar Guðmundur meðal annars ljósi á frásögn manns sem segir Friðrik hafa leitað á sig þegar hann var ungur drengur. 

Egill tjáði sig á Facebook í gær. 

„Viðtal mitt við Guðmund Magnússon í Kiljunni fjallaði um bók sem er 500 blaðsíður, umfjöllunarefnið er Séra Friðrik Friðriksson. Þar er gríðarlega mikið af upplýsingum enda leitaði Guðmundur í bréfa- og skjalasöfn við vinnslu bókarinnar. Upp úr þessu hefur sprottið heilmikil umræða í samfélaginu. En ég er steinhissa á því hversu margir tjá sig án þess að hafa lesið bókina - ég hefði haldið að lestur hennar væri ákveðin forsenda á þessu stigi málsins. Að menn kynni sér málavöxtu í stað þess að stökkva fram með tal um að „alltaf hafi verið orðrómur“,“ skrifar Egill. 

Liggur ekki á að rífa niður styttu

Auk þess segir Egill að það liggi ekki á að rífa niður styttu eða fá viðbrögð eða fordæmingu allra sem tengjast málinu. 

„Séra Friðrik hefur verið í gröfinni í 62 ár en bókin kom út núna í vikunni. Lesið hana – hún er grundvöllur þessarar umræðu ekki félagsmiðlarnir eða tilfinning fyrir því að hlutirnir hafi verið svona eða hinsegin,“ skrifar Egill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert