Fékk tölvupóst 11 mínútum fyrir atkvæðagreiðslu

Katrín Jakobsdóttir kveðst ekki hafa séð tölvupóstinn áður en atkvæðagreiðslan …
Katrín Jakobsdóttir kveðst ekki hafa séð tölvupóstinn áður en atkvæðagreiðslan hófst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk tölvupóst um að Ísland myndi sitja hjá í atkvæðagreiðslu um ályktun Jórdaníu um vopnahlé á Gasasvæðinu, 11 mínútum áður en atkvæðagreiðslufundur hjá Sameinuðu þjóðunum hófst.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Bergþóru Benediktsdóttur, aðstoðarmanni forsætisráðherra, við fyrirspurn mbl.is. RÚV greindi fyrst frá.

Tvennar sögur virðast hafa farið af því hvort að Katrín hafi verið upplýst fyrir atkvæðagreiðsluna um ákvörðun Íslands að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni. Sjálf hafði Katrín sagt við RÚV að ekkert samráð hafi verið við sig áður en fastanefnd Íslands ákvað að sitja hjá.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag þá sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra aftur á móti að forsætisráðuneytið hefði verið upplýst fyrir atkvæðagreiðsluna um „hvaða skila­boð við mynd­um senda sam­hliða því að sitja hjá“.

Segir ljóst að ekkert samráð hafi átt sér stað

Í svari aðstoðarmanns Katrínar segir að forsætisráðherra hafi séð tölvupóstinn eftir að atkvæðagreiðsla hófst, en tölvupósturinn barst klukkan 18.49 á föstudaginn og atkvæðagreiðsla hófst klukkan 19 að Íslenskum tíma. Bárust þessar upplýsingar forsætisráðherra frá alþjóðafulltrúa forsætisráðuneytisins.

„Forsætisráðherra sá póstinn eftir að atkvæðagreiðsla var hafin en ekki var óskað eftir afstöðu hennar til þessarar afstöðu utanríkisráðuneytisins. Því liggur algjörlega ljóst fyrir að ekki var haft sérstakt samráð við forsætisráðherra um þessa afstöðu eins og fram kom í máli hennar í fréttum Ríkisútvarpsins í gær,“ segir í svari frá Bergþóru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka