Kalla eftir þingfundi um utanríkisstefnu Íslands

Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar hefur sent forseta Alþingis bréf þar …
Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar hefur sent forseta Alþingis bréf þar sem óskað er eftir því að Alþingi komi saman til fundar um utanríkisstefnu Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar hefur sent forseta Alþingis bréf þar sem óskað er eftir því að Alþingi komi saman til fundar um utanríkisstefnu Íslands. Bréfið er sent fyrir hönd þingflokka Samfylkingar, Flokks fólksins, Pírata, Viðreisnar og Miðflokks.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni.

Óskar stjórnarandstaðan eftir því að á fimmtudaginn 2. nóvember verði þingfundardagur í stað nefndardags og að þar verði forsætisráðherra og utanríkisráðherra til svara fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar.

„Það teljum við áríðandi vegna atburða undanfarinna daga og stöðu utanríkismála,“ segir í tilkynningunni.

Hefðu viljað samþykkja ályktun Jórdaníu

Enn fremur segir að Samfylkingin hefði viljað samþykkja ályktun Jórdaníu hjá Sameinuðu þjóðunum þess efnis að kalla eftir vopnahléi á Gasa. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hefur áður sagt að Ísland hafi setið hjá í þeirri atkvæðagreiðslu þar sem ekki var fordæmt  hryðjuverk Hamas-hryðjuverkasamtakanna í ályktun Jórdaníu

„Í kjölfarið hafa forsætisráðherra og þingflokkur eins af þremur stjórnarflokkum skapað óvissu á sviði utanríkismála með því að opinbera andstöðu sína við utanríkisstefnu Íslands eins og hún birtist á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þessi staða kallar á umræðu á Alþingi,“ segir í tilkynningunni. 

Eins og mbl.is hefur greint frá þá hafa tvennar sögur farið af því hvort að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi verið upplýst um afstöðu Íslands fyrir atkvæðagreiðsluna. Samkvæmt aðstoðarmanni hennar fékk hún tölvupóst 11 mínútum fyrir atkvæðagreiðsluna þar sem var greint frá afstöðu Íslands. Katrín hafði þó ekki lesið tölvupóstinn fyrir atkvæðagreiðsluna, að sögn aðstoðarmanns hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert