Karlmaður um þrítugt hefur verið fundinn sekur um að hafa ekið sviptur réttindum og undir áhrifum amfetamíns þegar hann keyrði niður þrjú umferðarskilti. Maðurinn fór svo af vettvangi í golf með félaga sínum og sagði vinkonu sína hafa keyrt bifreiðina, en dómari taldi hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi sjálfur keyrt bifreiðina.
Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra er málið rakið, en maðurinn var handtekinn í október í fyrra. Fékk lögreglan tilkynningu rúmlega 11 um morgun á miðvikudegi að bifreið hefði verið ekið á staur á Dalsbraut á Akureyri. Væri maður á vettvangi að tína upp brak úr bifreiðinni.
Lögregla hélt á vettvang, en þá var maðurinn farinn í burtu. Greindu vitni frá því að hann hafi verið sóttur á stórri sendibifreið. Komst lögreglan að því að eigandi bifreiðarinnar sem hafði verið klesst væri ákærði, en hann var sviptur réttindum til aksturs til ársbyrjunar 2025.
Ummerki bentu til að bifreiðinni hefði verið ekið í sveig út af veginum og upp á grashól og því næst yfir umferðareyju. Í leiðinni var bifreiðinni ekið á þrjú umferðarskilti, tvö boðmerki og eitt gangbrautarmerki. Tekið er fram í dóminum að engin hálka hafi verið á þessum tíma, en krapi utan akbrautar.
Golfsett var í aftursæti bifreiðarinnar og hélt lögreglan upp á golfvöll í bænum og fann þar sendibifreið sem passaði við lýsingu vitna. Þá fannst maðurinn einnig á æfingasvæðinu og var hann tekinn tali.
Í dóminum er tekið fram að lögreglumenn hafi veitt því athygli að hvítar efnisleifar hafi verið á nefi mannsins og var hann handtekinn grunaður um umferðarlagabrotin. Auk þess fundust lyklar bifreiðarinnar í jakkavasa mannsins.
Á lögreglustöð var tekin blóðprufa og reyndist hann undir áhrifum amfetamíns.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu síðar sagði maðurinn að hann hefði ekki sjálfur keyrt bifreiðina, heldur hafi hann hringt í vinkonu sína og beðið hana um að skutla sér í golf. Eftir óhappið hafi hún hins vegar verið slæm í bakinu og faðir hennar hafi komið að sækja hana, meðan vinur mannsins kom á sendibílum og sótti hann þaðan sem þeir fóru saman í golf.
Sagðist maðurinn ekki getað svarað því af hverju hann hafi ekki strax greint frá því að vinkonan hafi keyrt bifreiðina. Hann hafi bara viljað halda henni utan málsins.
Vitni bar fyrir dómi að hafa séð manninn við bifreiðina eftir áreksturinn, en engan annan. Þá sagði golffélaginn að vinur sinn hafi verið einn á vettvangi og að hann hafi ekkert sagt sér að einhver annar hafi verið í bílnum.
Vinkonan sagði fyrir dómi að maðurinn hafi hringt í sig og beðið sig um að skutla sér upp á golfvöll. Hún hafi misst stjórn á bílnum og ollið árekstrinum. Maðurinn hafi sagt sér að hann myndi „redda þessu“ og að hún ætti bara að fara heim. Hún hafi hringt í föður sinn sem hafi mætt á vettvang. Hann væri hins vegar 83 ára og myndi lítið eftir atvikum. Staðfesti hann það fyrir dómi, en sagðist of skutla dóttur sinni.
Í dóminum er rakið hvernig frásögn mannsins um hver hafi verið ökumaður hafi tekið breytingum. Fyrst á golfvellinum sagðist hann hafa verið ökumaður. Stuttu síðar hafi hann breytt um framburð og sagt að hann hafi ekki ekið bifreiðinni. Eftir að lögreglan greindi honum frá því að hann væri grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna breytti hann aftur um framburð og sagðist hann hafa lagt bílnum og að ökumaðurinn hafi verið „einhver maður“ sem vildi fá bílinn lánaðan. Sagðist hann ekki þora að segja frá hvaða maður það hafi verið.
Það var svo í greinargerð verjanda mannsins sem nafn vinkonunnar kom fyrst fram. Gat maðurinn engar skýringar gefið á hvers vegna hann hafi ekki strax skýrt frá þætti hennar.
Dómari málsins virðist ekki gefa mikið fyrir þessar skýringar og segir í dóminum að framburður konunnar sé metinn ótrúverðugur og andspænir öðrum gögnum málsins. Þá haldi framburður mannsins um annan ökumann ekki vatni.
Segir dómarinn það því hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi sjálfur ekið bifreiðinni í þetta skipti og að hann hafi því ekið henni undir áhrifum. Er hann sakfelldur fyrir það. Var 30 daga fangelsi talið hæfilegur dómur, sem og svipting til þriggja ára.