Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði, segir löngu tímabært að hafa áhyggjur af mögulegu eldgosi í grennd við Bláa lónið og Svartsengi. Ekki þurfi að hafa mörg orð um þær afleiðingar sem það gæti haft á innviði og byggð.
Þegar mbl.is sló á þráðinn til Þorvaldar var hann staddur í Svíþjóð og sólin skein. Hann hafði haft tíðindi af skjálftanum sem reið yfir í hádeginu en þá var hann á myndfundi með sérfræðingum heima á Íslandi.
„Já, ég held það sé löngu tímabært að hafa áhyggjur af því,“ segir Þorvaldur spurður um þá virkni sem hefur verið í grennd við Bláa lónið undanfarna daga og hvort við ættum að hafa áhyggjur af hugsanlegu eldgosi í kjölfarið.
Þorvaldur benti á í samtali við mbl.is á laugardag að lítill viðbragðstími væri ef kvika kemur upp þar sem virknin er núna.
Upptök skjálfta undanfarna daga hafa verið mun nær öllum innviðum heldur en eldvirkni síðustu ára á Reykjanesskaga.
Land hefur risið hratt við fjallið Þorbjörn og segir Þorvaldur áhugavert að á sama tíma hafi hægst á landrisinu við Fagradalsfjall. Það gæti þýtt að kvikan sé frekar að leita upp í grennd við Þorbjörn en Fagradalsfjall.
„Það er þó alveg ómögulegt að segja til um hvort það komi eldgos þar [við Þorbjörn] eða við Fagradalsfjall. Tíminn verður bara að leiða það í ljós,“ segir Þorvaldur.
Stór kvikugeymir er undir Reykjanesskaga, á um 10 til 15 kílómetra dýpi að sögn Þorvaldar.