Riða greindist í skimunarsýni frá bænum Stórhóli í Húnaþingi vestra. Matvælastofnun barst tilkynning þess efnis frá tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum fyrir helgi.
Um er að ræða eitt jákvætt sýni úr tveggja vetra á. Á bænum Stórhóli eru um 600 kindur.
Bærinn tilheyrir Húna- og Skagahólfi. Riða greindist síðast á bænum árið 2006 en á nágrannabæ hans árið 2021 að því er fram kemur í tilkynningu frá Matvælastofnun. Ekki hafði borið á sjúkdómseinkennum í kindinni né öðrum á bænum.
Undirbúningur aðgerða er hafinn. Faraldsfræðilegum upplýsingum verður safnað og áhersla lögð á að rekja hvert kindur af bænum hafa verið fluttar.
Sýni eru tekin út fullorðnu fé sem sent er til slátrunar og þau rannsökuð með tilliti til riðu.