Þurfti ekki sérstakt samráð: „Ég tók af skarið“

Bjarni Benediktsson á leið á fund utanríkismálanefndar í morgun.
Bjarni Benediktsson á leið á fund utanríkismálanefndar í morgun. mbl.is/Hákon

Afstöðu Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á föstudaginn, um að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um vopnahlé á Gasasvæðinu, var komið á framfæri við forsætisráðuneytið áður en atkvæðagreiðslan fór fram.

Þetta segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, sem var gestur á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun.

„Það lá fyrir í samskiptum okkar við forsætisráðuneytið áður en atkvæðagreiðslan fór fram og áður en ræðan var flutt, hvaða skilaboð við myndum senda samhliða því að sitja hjá. Drög að ræðunni voru til dæmis afhent þannig að þá lá allt fyrir áður en atkvæðagreiðslan fór fram,” greinir Bjarni frá.

„Þetta kallaði að mínu mati ekki á sérstakt pólitískt samráð enda taldi ég að við værum einfaldlega að framfylgja þeirri stefnu og koma á framfæri þeim meginskilaboðum sem við höfum verið sammála um.”

Bjarni ræðir við Diljá Mist Einarsdóttur, formann utanríkismálanefndar. Við hlið …
Bjarni ræðir við Diljá Mist Einarsdóttur, formann utanríkismálanefndar. Við hlið hans situr aðstoðarmaður hans, Hersir Aron Ólafsson. mbl.is/Hákon

Fram kom í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í gær að Ísland hefði átt að greiða atkvæði með ályktun Jórdaníu um vopnahlé á Gasa.

Sagði hún að ekki hefði verið haft samráð við sig áður en fastanefnd Íslands ákvað að Ísland sæti hjá í atkvæðagreiðslunni. Hefð sé þó ekki fyr­ir því að haft sé sam­ráð við for­sæt­is­ráðherra við at­kvæðagreiðslu.

Afstaða Vinstri grænna óheppileg

Varstu að fara gegn vilja forsætisráðherra með þessu?

„Ég tel að þessi afstaða og eins og henni var fylgt eftir í ræðu sem er aðgengileg á vef utanríkisráðuneytisins í íslenskri þýðingu, þá höfum við verið mjög skýrt að koma á framfæri þeim áherslum sem við forsætisráðherra höfum verið sammála um, þ.e. að leggja áherslu á mannúðaraðstoð á svæðinu,” svarar Bjarni.

Bætir hann við að ríkisstjórnin hafi kallað eftir mannúðarhléi á átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs og að hún hafi sýnt það í verki að hún vilji aukna mannúðaraðstoð með auknum framlögum.

„Mér finnst það vera óheppilegt ef Vinstri græn telja að við hefðum átt að greiða atkvæði með öðrum hætti en ég tel að við höfum komið okkar afstöðu, sem við erum sammála um, mjög vel til skila í þessu tilviki og ég vek athygli á því að öll ESB-ríkin, Norðurlöndin, Bretland, Ástralía og fleiri voru sammála því að samþykkja tillögu Kanada,” bætir Bjarni við.

Við upphaf fundarins í morgun.
Við upphaf fundarins í morgun. mbl.is/Hákon

Að mótast fram á síðustu stundu

Hann kveðst hafa verið í góðu sambandi við fulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á allsherjarþinginu. Fulltrúinn hafi verið í góðu samtali dagana á undan við samstarfsþjóðir Íslands.

„Eins og fram er komið var tillagan að taka breytingum og mótast alveg fram á síðustu stundu og svo eru greidd atkvæði um breytingartillögu Kanada á föstudaginn og við þurftum þá að taka afstöðu til þess hvernig við myndum bregðast við þeirri staðreynd að það skyldi ekki takast samstaða um að samþykkja þá tillögu. Ég tók af skarið með það að við skyldum sitja hjá,” heldur Bjarni áfram.

Palestínsk börn leika sér í húsarústum á Gasasvæðinu.
Palestínsk börn leika sér í húsarústum á Gasasvæðinu. AFP/Mohammed Abed

„Í mínum huga er það afskaplega dapurt og umhugsunarvert að á þessum vettvangi, allsherjarþinginu, skuli ekki hafa náðst aukinn meirihluti fyrir því að samþykkja tillögu Kanada sem setur alla þessa atburðarás í rétt og eðlilegt samhengi og eins líka viðbrögð Ísraels. Það á endanum varð til þess að við ákváðum að sitja hjá.”

Ísraelar verða að virða alþjóðalög

Rúmar þrjár vikur eru liðnar síðan Hamas-hryðjuverkasamtökin gerðu óvænta árás á Ísrael og drápu að minnsta kosti 1.400 manns, flesta almenna borgara, að sögn ísraelskra embættismanna.

Síðan sú árás var gerð 7. október hafa 8.306 Palestínumenn verið drepnir í endurteknum loftárásum Ísraela á Gasasvæðið, þar af 3.457 börn. Þessu greindi heilbrigðisráðuneytið á svæðinu, sem Hamas reka, frá í morgun. 

Spurður hvort Ísraelar hafi farið yfir strikið í sínum árásum segir Bjarni að mörgu að huga hvað það varðar. Í fyrsta lagi séu skýrar vísbendingar um að mannúðarlög séu ekki virt að fullu þar sem mannúðaraðstoð komist ekki með skilvirkum hætti til fólks í neyð. Á hinn bóginn verði að setja átökin á svæðinu í samhengi við hryðjuverkaárás Hamas.

Ísraelskur hermaður stendur ofan á skriðdreka.
Ísraelskur hermaður stendur ofan á skriðdreka. AFP/Jalaa Marey

„Það hrindir af stað þessari atburðarás og okkar málstaður hefur verið sá, og við höfum komið honum á framfæri beint til Ísraels og við höfum talað fyrir þessu á alþjóðavettvangi, að Ísraelar verði að virða alþjóðalög og geti ekki í aðgerðum sínum brotið gegn þeim. Slíkar ásakanir verði að rannsaka og fella í réttan farveg. Okkar málstaður á þessum tímapunkti er að hvetja til þess að það sé dregið úr spennunni og mannúðaraðstoð komið til fólks í neyð,” svarar Bjarni.

Frekari fjárframlög koma til greina

Beðinn um að nefna áframhaldandi aðkomu Íslands að málinu nefnir hann að umræðan haldi áfram á allsherjarþingi SÞ á morgun og að góð samskipti Íslands við sínar samstarfsþjóðir þjóðir haldi áfram.

Lagt verði mat á það hvort ríkisstjórnin geti aukið enn frekar við framlög sín til mannúðaraðstoðar.

Sveinn Rúnar Hauksson og leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir mótmæla fyrir utan …
Sveinn Rúnar Hauksson og leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir mótmæla fyrir utan Ráðherrabústaðinn fyrir helgi. mbl.is/Hákon

Mótmælin hérlendis komið á óvart

Spurður segir hann mótmælin hérlendis að undanförnu, vegna þess að Ísland ákvað að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni á föstudag, hafa komið sér að vissu leyti á óvart.

„Hins vegar erum við öll auðvitað harmi slegin yfir afleiðingunum af þessum átökum. Ég hef fullan skilning á því að það sé þetta sterkt ákall um að það sé dregið úr spennunni og reynt að finna friðsamlega lausn,” segir Bjarni.

„Það hefur verið málstaður okkar um mjög langt skeið að hvetja til tveggja ríkja lausnar og reyna að beita okkur fyrir því að það sé ekki stigmögnun í átökum. En þetta er vandrataður meðalvegur þegar fyrstu atburðirnir mótast af hrottalegri hryðjuverkaárás, gíslatöku, afhöfðun fólks og svo framvegis. Það er ekki hægt að taka atburðina sem gerast í kjölfarið úr samhengi við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert