Um 550 skjálftar frá miðnætti

Landris hefur mælst norðvestan við Þorbjörn og margþætt ferli kvikuhreyfinga …
Landris hefur mælst norðvestan við Þorbjörn og margþætt ferli kvikuhreyfinga stendur yfir á Reykjanesskaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 550 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga síðan á miðnætti í gær. Það er svipuð virkni og hefur verið undanfarna sólarhringa.

Frá miðnætti á fimmtudag og fram á föstudagsmorgun mældust um 850 skjálftar á svæðinu. Á sama tímabili sólarhring síðar um 480 og í gær um 300 skjálftar.

Virknin virðist rokka upp og niður

Allir skjálftar næturinnar mældust undir 3 að stærð en sá stærsti, sem reið yfir laust fyrir klukkan 7 í morgun, mældist 2,6 að stærð.

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að það sé ekki hægt að lesa mikið í fjölda eða stærð skjálfta í nótt en svo virðist sem virknin rokki aðeins upp og niður.

„Í rauninni eru ekki neinar nýjar upplýsingar komnar. Þetta er bara svipuð staða og var í gær. InSAR-myndin er ekki komin. Við bíðum eftir að fá hana í hendurnar.“

Hvað landris varðar hefur Veðurstofan ekki fengið nýjan punkt að sögn Lovísu en beðið er eftir honum. Landris hefur mælst norðvestan við Þorbjörn og margþætt ferli kvikuhreyfinga stendur yfir á skaganum.

Lovísa segir að þegar gögn fari að berast í hús í dag verði mögulega hægt að varpa frekara ljósi á framvinduna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert