Gæsluvarðhald yfir karlmanni sem er grunaður um hrottalegt ofbeldi gagnvart fyrrverandi kærustu sinni í ágúst hefur verið framlengt til 27. nóvember.
Að sögn embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var óskað eftir fjögurra vikna framlengingu á varðhaldinu og var það samþykkt í gær af Héraðsdómi Reykjaness.
Rannsókn á málinu er enn í gangi hjá lögreglunni en maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan 4. september.
Maðurinn er grunaður um að hafa ráðist að konunni og ítrekað lamið og sparkað í hana og þá sérstaklega í höfuðið.
Einnig hafi hann reynt að kyrkja konuna og haldið henni með kyrkingartaki þar sem hún var með höfuðið undir vatni í nærliggjandi læk. Telja má kraftaverki næst að gangandi vegfarandi hafi komið þar að en við það hætti maðurinn barsmíðunum og hljóp á brott.
Konan var nefbeins- og andlitsbrotin eftir árásina og með opin sár á höfði, marga marbletti á höfði, hálsi og víðar um líkamann.