Bjarni Guðnason, fyrrverandi alþingismaður og prófessor, lést föstudaginn 27. október síðastliðinn, 95 ára að aldri.
Bjarni var fæddur í Reykjavík 3. september 1928. Foreldrar hans voru Guðni Jónsson prófessor og kona hans, Jónína Margrét Pálsdóttir húsmóðir.
Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1948. Stundaði nám í ensku við háskólann í Lundúnum 1948-1949. Lauk meistaraprófi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1956 og doktorsprófi við Háskóla Íslands 1963.
Bjarni var stundakennari við skóla í Reykjavík 1948-1955. Sendikennari í íslenskri tungu og bókmenntum við Háskólann í Uppsölum 1956-1962. Kennari við Menntaskólann í Reykjavík 1962-1963 og stundakennari 1964-1966. Bjarni var prófessor í íslenskri bókmenntasögu fyrri alda við Háskóla Íslands 1963-1998.
Bjarni ritaði bækur og greinar um íslenskar fornbókmenntir og samdi skáldsöguna Sólstafi. Doktorsrit hans var um Skjöldunga sögu. Hann gaf út sögur Danakonunga með rækilegum formála á vegum Hins íslenska fornritafélags. Hann ritaði fræðigreinar í íslensk og erlend rit.
Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum um ævina. Var fyrsti formaður Félags háskólakennara 1969-1970 og tvívegis forseti heimspekideildar HÍ.
Bjarni var landskjörinn alþingismaður Reykvíkinga kjörtímabilið 1971-1974 fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Hann var varaþingmaður fyrir Alþýðuflokkinn í Reykjavík 1983-1987 og tók tvisvar sæti á Alþingi.
Bjarni Guðnason var mikill íþróttamaður á yngri árum og lék allan sinn feril með Víkingi. Hann lék fjóra landsleiki í knattspyrnu á árunum 1951-1954 og einnig nokkra landsleiki í handknattleik. Bjarni var heiðursfélagi Víkings. Hann var í íslenska landsliðinu sem lagði Svía að velli 4:3 á Melavellinum 29. júní 1951 í einum frægasta leik landsliðsins fyrr og síðar.
Bjarni kvæntist árið 1955 Önnu Guðrúnu Tryggvadóttur kennara. Þau eignuðust fjögur börn, Tryggva, Gerði, Auði og Unni. Anna Guðrún lést árið 2020.