Fjögurra bíla árekstur varð við framkvæmdasvæði á Reykjanesbraut um áttaleytið í morgun, á svæði þar sem búið er að breyta legu vegarins austan við Straumsvík.
Ekkert er vitað um tildrög slyssins en þrír voru fluttir slasaðir á slysadeild. Ekki er vitað hversu margir voru í bílunum fjórum.
Að sögn Sævars Guðmundssonar aðalvarðstjóra gengur umferðin hægt í kringum slysstað. Lögregla reynir að hleypa umferð í gegn um einstefnu en búast má við að von bráðar fari að ganga betur að hleypa umferð í gegn.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að unnið sé að því að opna veginn, en umferð var um skeið beint um Krýsuvíkurveg, Suðurstrandarveg og Grindavíkurveg.
Uppfært:
Opnað hefur verið fyrir umferð um Reykjanesbraut á ný.