Gera ráð fyrir að tvær klukkustundir séu nóg

Helga segir aðspurð að gert sé ráð fyrir að tvær …
Helga segir aðspurð að gert sé ráð fyrir að tvær klukkustundir séu nægilega langur tími til að framkvæma rýmingu á öllum svæðum Bláa lónsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helga Árna­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri sölu, rekstr­ar og þjón­ustu í Bláa lóninu, segir öryggisteymi Bláa lónsins hafa yfirfarið allar áætlanir sínar og viðbúnað með tilliti til mismunandi sviðsmynda. Aðspurð segir hún tvær klukkustundir myndu duga til að rýma allt svæðið.

„Við erum með rýmingaráætlun vegna eldgoss til staðar og teljum okkur vel í stakk búin til að takast á við slíkar aðstæður, en það yrði í framhaldi af tilmælum frá yfirvöldum,“ segir Helga í samtali við mbl.is.

Segir hún yfirvöld meta stöðuna hverju sinni og að Bláa lónið muni hafa þann tíma sem til þurfi til að framkvæma allar rýmingar.

„Rýmingaráætlanirnar eru svæðaskiptar því um mikinn og víðfeðman rekstur er að ræða. Við höfum farið yfir þær á mismunandi svæðum og æft reglubundið í gegnum árin. Við erum með öflugt öryggisteymi og einnig sérstakan viðbragðshóp.“

Land rís hraðar en áður

Óvissustig almannavarna er enn í gildi vegna jarðskjálftahrinu norðan Grindavíkur og land hefur tekið að rísa að nýju, hraðar en áður. Miðja landriss­ins er nærri Bláa lón­inu og Svartsengi.

Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir tímaspursmál hvenær eldgos verði nálægt mikilvægum innviðum á Reykjanesskaga og stofni þeim í hættu.

Bláa lónið stendur við norðurhjara hraunsins

Eldstöðvakerfi Reykjanesskagans eru sex og eitt þeirra er Svartsengiskerfið. Alls hafa 12-15 hraun verið aðgreind innan kerfisins.

Illahraun er um þrír ferkílómetrar að stærð, komið úr stuttri gígaröð um 1.200 metrum austan við Eldvörp. Bláa lónið stendur við norðurhjara Illahrauns.

Jarðhræringarnar á skaganum árið 2020 hófust í Svartsengiskerfinu áður en þær færðust yfir í Fagradalsfjallskerfið en kvika kom sem kunnugt er upp innan þess kerfis í mars árið 2021.

Ekki allir út um sömu dyrnar

Helga segir aðspurð að gert sé ráð fyrir að tvær klukkustundir séu nægilega langur tími til að framkvæma rýmingu á öllum svæðum.

Spurð hvaða aðstæður þurfi að koma upp svo ákvörðun verði tekin um að loka lóninu, segir hún þær ekki liggja fyrir en fyrirmælum sérfræðinga og almannavarna verði fylgt.

„Þeir eru sérfræðingarnir og við fylgjum þeim í einu og öllu.“

Hún á ekki von á því að glundroði eða hræðsla geti skapast vegna hugsanlegrar rýmingar, rýmingaráætlanir séu margskiptar.

„Söfnunarsvæðin eru mörg og það er ekki eins og allir séu að fara út um sömu dyrnar. Svæðið er það stórt og fjölbreytilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert