Hafa enn ekki getað flutt inn eftir snjóflóðið

Mesta mildi þykir að ekki fór verr þegar snjóflóð féll …
Mesta mildi þykir að ekki fór verr þegar snjóflóð féll á íbúð Kristófers og Önnu Bjargar. Samsett mynd

Þau Anna Björg Rúnarsdóttir og Kristófer Snær Egilsson sem lentu í snjóflóði í Neskaupstað ásamt þremur börnum sínum í mars á þessu ári eru enn ekki flutt inn í íbúð sína vegna þeirra skemmda sem urðu á henni.

Íbúðin stendur við Starmýri 17-19 sem er eitt þeirra húsa sem hvað mestan snjó fengu á sig í snjóflóðinu sem féll. Þau Anna og Kristófer eiga þrjú börn. Ungbarn, 7 ára stúlku og 11 ára dreng.   

Tjónið ekki bætt að fullu 

Þau hafa verið í leiguíbúð á vegum Fjarðabyggðar og hafa þar afdrep út nóvembermánuð. Anna segir að náttúruhamfaratryggingar hafi ekki bætt þeim allt það fjárhagslega tjón sem varð. 

Aftur á móti hafi söfnun Rótarýklúbbsins hjálpað afar mikið til og dregið þau nær landi þó vissulega sé einhver kostnaður sem falli á þau vegna skemmdanna.

Þau fengu aftur á móti bíl sinn alfarið bættan en hann fór í hálfgerða klessu í flóðinu.

Bíllinn var stórskemmdur og fengu þau hann bættan.
Bíllinn var stórskemmdur og fengu þau hann bættan. Ljósmynd/Anna Björg

Mesta mildi þykir að ekki fór verr þegar snjóflóðið féll. Við það sprungu gluggar og grófst dóttir þeirra tímabundið undir fannfergi. Kristófer lá við hlið hennar og það varð honum til happs því hann gat grafið hana upp í snarheitum.

Þá hafði hvítvoðungurinn vaknað snemma og Anna var með barnið inni í stofu og því fjarri gluggum þegar ósköpin dundu yfir árla morguns. Kristófer fékk tugi skurða um líkamann og kennir sér enn meins í öxl og baki að sögn Önnu. 

Lífið heldur áfram

Fyrstu skrefin eftir flóðin voru að moka snjó út í körum. Í framhaldinu þurfti að rífa af allt gólfefni og þurrka gólfið. Þá skemmdist eldhúsinnrétting og baðherbergi t.a.m. 

Spurð hvernig henni líði með það að flytja aftur inn íbúðina þar sem flóðið féll þá segir hún erfitt að meta það svona fyrirfram. 

„Lífið heldur bara áfram og þetta verður bara að koma í ljós. Maður veit kannski síður hvernig börnin munu taka þessu. Þau eru svo sem brött en hafa ekki upplifað það að vera hér með snjóinn í fjöllunum eftir snjóflóðið,“ segir Anna.

Töluverð vinna eftir

Hún segir ekkert annað í stöðunni en að flytja aftur inn. Þó á eftir að vinna talsverða vinnu við endurbætur á innvolsi húsnæðisins. Á meðfylgjandi myndbandi má sjá hvernig umhorfs var skömmu eftir búið var að moka snjó út úr íbúðinni. 

„Við höfum svolítið verið í því að taka bara einn dag í einu. Við erum með lítið barn og það tekur sinn tíma. Svo erum við bara að gera endurbæturnar sjálf með fjölskyldunni, svona fyrir utan það sem iðnaðarmennirnir gera. Og það er ekkert auðvelt að fá þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert