Heimilt verði að skera niður fjárstofn að hluta

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfirdýralæknir í samstarfi við bændur vinnur að gerð áætlunar eða tillagna um með hvaða hætti verði farið í að flýta útrýmingu riðu með ræktun.

Áætlað er að afrakstur þeirrar vinnu komi út í skýrslu á morgun, 1. nóvember.

Bíður eftir drögunum

Í tengslum við þá vinnu er unnið að reglugerðarbreytingu í matvælaráðuneytinu.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir í samtali við mbl.is að hún bíði eftir reglugerðardrögunum. Segir hún breytinguna snúast um að heimilt verði að skera niður riðusýktan fjárstofn að hluta.

Fjármagn í fjármálaáætlun og fjárlögum

Hvað vinnu yfirdýralæknis og bænda varðar segir ráðherra markmiðið að breyta nálgun á útrýmingu riðu í ljósi þess að verndandi arfgerð sé til.

„Við erum komin með fjármagn í fjármálaáætlun og fjárlögum til að flýta þessu ferli. Því fjármagni er ætlað að koma til móts við sýnatökur, arfgerðagreiningu, sæðingar og ýmsa aðra þætti sem eru til þess fallnir að breiða þessa verndandi arfgerð út eins hratt og hægt er.“

Segir Svandís að það séu bændur sjálfir sem séu í raun og veru þeir sem framfylgja muni stefnubreytingunni.

„Það eru þeir sem framkvæma ræktunina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert