Guðmundur Bjarnason klæðskeri og vinur séra Friðriks Friðrikssonar, greindi Friðriki frá því í bréfi að hann laðaðist að karlmönnum. Guðmundur Magnússon sagnfræðingur segir bréfið varpa nýju ljósi á séra Friðrik og sögu hans.
Guðmundur Magnússon ritar um bréfið á vef sínum, Skrifhús, en hann gaf nýverið út bókina Séra Friðrik og drengirnir hans. Í bókinni greinir Guðmundur M. meðal annars frá því að maður hafi haft samband við hann er hann vann bókina og sagt frá því að séra Friðrik hafi leitað á sig þegar hann var barn.
Bréfið er frá ársbyrjun 1913 og lýsir Guðmundur Bjarnason þar angist og sálarstríði sínu vegna samkynhneigðar sinnar. Í bréfinu kallar hann samkynhneigðina homosexualisma, og ritar þennan hluta bréfsins á dönsku.
Upphaf kaflans þar sem er greint er frá bréfinu hljóðar svo:
Um miðjan janúar 1913 berst séra Friðriki bréf frá Guðmundi Bjarnasyni klæðskera. Hann býr ofarlega á Grettisgötu, ekki langt frá vini sínum og læriföður. En Guðmundur treystir sér ekki til að heimsækja Friðrik á Amtmannsstíg og ræða við hann augliti til auglitis um það efni sem honum býr í brjósti. Það er afar viðkvæmt og hann kýs frekar að setja orðin á blað og senda honum í pósti. Hann byrjar á því að afsaka sig eins og gjarnan í bréfum til Friðriks. „Þú skrifar mér kort sem færa mér mikla gleði, ég tek pennann til að skrifa bréf sem færir þér sorg og vonbrigði.“ Guðmundur kveðst ætla að trúa Friðriki fyrir því sem hann kallar „raun lífs míns, þeim síkvikandi eldi sem brennir burtu allan minn lífskraft og lífslöngun og sú raun er þyngst sem ómögulegt er að tala um og enginn skilur.“
Guðmundur heldur áfram á dönsku og segir það sem hann þurfi að segja Friðriki svo skelfilegt að hann geti ekki skrifað um það á íslensku, og að hann geti ekki lesið yfir það aftur.