Krefja íslensk stjórnvöld svara

Í lok síðasta árs var Hussein Hussein og fjölskylda hans …
Í lok síðasta árs var Hussein Hussein og fjölskylda hans flutt af landi brott með valdi. Ljósmynd/Aðsend

Sá úrskurður var kveðinn upp í dag af Mannréttindadómstól Evrópu að ekki mætti vísa Hussein Hussein og fjölskyldu hans af landi brott fyrr en í fyrsta lagi 21. nóvember.

Til stóð að flytja fjölskylduna af landi brott þann 11. nóvember en síðan barst henni tilkynning að brottflutningnum yrði flýtt til 7. sama mánaðar. Nú er hins vegar ljóst að ekkert verður af honum.

Claudia Ashanie Wilson, lögfræðingur fjölskyldunnar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is en nýlega óskaði hún eftir því að brottvísuninni yrði frestað þar til Mannréttindadómstóllinn hefði tekið mál fjölskyldunnar til efnismeðferðar.

Claudia Ashanie Wilson, lögfræðingur fjölskyldunnar.
Claudia Ashanie Wilson, lögfræðingur fjölskyldunnar. Mynd/Skjáskot af vef RÚV

Segir hún skýrt koma fram í úrskurðinum að hann sé bindandi fyrir íslensk stjórnvöld og þeim beri því að virða hann.

„Samkvæmt úrskurðinum er íslenskum stjórnvöldum óheimilt að framkvæma flutning umbjóðenda minna fyrir 21. nóvember og þá áður en endanlegur úrskurður dómstólsins liggur fyrir.“

Gert að svara fimm spurningum

Mannréttindadómstóllinn hefur nú sent fimm spurningar til íslenskra stjórnvalda og er þeim gert að svara þeim fyrir 8. nóvember:

-Hvaða skref, ef einhver, hafa verið tekin til þess að tryggja vel heppnaðan flutning Hussein Hussein til Grikklands?

-Ef skref hafa verið tekin, hvenær og hvernig verður umsækjandinn fluttur?

-Mun umsækjandinn njóta læknisþjónustu á leiðinni? Ef svo, vinsamlegast útskýrið í smáatriðum.

-Liggur fyrir verklag um afhendingu umsækjandans til grískra yfirvalda við komuna til landsins?

-Hvaða skref, ef einhver, hafa verið tekin til þess að tryggja að umsækjendurnir muni njóta tilhæfilegra aðstæðna og nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu (með tilliti til sérstakra þarfa þeirra) þegar þeir eru komnir til Grikklands?

Mál fjölskyldunnar fordæmisgildi

Spurð að því hversu mikilvægur úrskurðurinn sé fyrir fjölskylduna á þessum tímapunkti segir Claudia hann gríðarlega mikilvægan.

„Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að gæta að mannréttindum einstaklinga innan lögsögu þeirra. Þeim ber af þessum ástæðum skylda til að endursenda einstaklinga ekki til ríkis þar sem þeir kunna að verða fyrir mannréttindabrotum.“

Segir hún jafnframt að úrskurðurinn hafi þá þýðingu að hver sem hin endanlega niðurstaða verði hjá Mannréttindadómstólnum sé ljóst að íslenskum stjórnvöldum sé óheimilt að senda einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu til Grikklands án þess að tryggja að þeim bíði viðunandi móttökuaðstæður í viðkomandi ríki.

Mál fjölskyldunnar hafi því gríðarlegt fordæmisgildi að þessu leyti fyrir önnur sambærileg mál.

Vinir komu til bjargar 

Segir Claudia dómstólinn vera að reyna að koma í veg fyrir að fjölskyldan verði fyrir óafturkræfum skaða og bætir við að fjölskyldan fái ekki einu sinni aðgang að flóttamannabúðum í Grikklandi.

„Aðstæðurnar sem biðu fjölskyldunnar við endurkomuna til Grikklands síðast voru með engu móti til þess fallnar að tryggja þeim mannsæmandi líf. Við komuna voru þau afhent af íslenskri löggæslu til grískrar. Fyrst um sinn voru þau látin dúsa í litlu herbergi á flugvellinum í marga klukkutíma en þegar þeim var sleppt úr haldi lögreglunnar var þeim vísað út á Omonia-torg í Aþenu sem er samkomustaður heimilislausra flóttamanna í Grikklandi.

Þökk sé íslenskum vinum þeirra, kennurum og starfsfólki Fjölbrautarskólans í Ármúla, þar sem systurnar hafa stundað nám, var leigð AirBnB íbúð til að tryggja þeim tímabundið húsnæði því annars hefði fjölskyldan endað strax á götunni,” segir hún og bætir við að Hussein Hussein hafi verið mjög veikur á meðan hann dvaldi í Grikklandi.

Þá hafi ítrekaðar tilraunir hans til að fá aðgengi að heilbrigðisþjónustu engan árangur borið og var honum vísað frá þremur sjúkrahúsum þegar hann óskaði eftir nauðsynlegri aðstoð.

Sjaldgæft að Mannréttindadómstóllinn beiti bráðabirgðaíhlutun

Innt eftir því hvort verið sé í raun að slá á fingur íslenskra stjórnvalda svarar Claudia því til að það megi í raun segja það.

„Þó ég líti svo á þá þarf samt að halda því til haga að dómstóllinn hefur ekki tekið neina efnislega afstöðu til málsins. Það er hins vegar ljóst að dómstóllinn telur ástæðu til þess að málið hljóti frekari athugun annars væri hann ekki að leggja þessar spurningar fram fyrir íslensk stjórnvöld.“

Telur hún afar athyglisvert að á föstudaginn hafi kærunefnd útlendingamála kveðið upp úrskurð í máli fjölskyldunnar og komist að þeirri niðurstöðu, hafandi lagt mat á eigin vinnubrögð, að engin ástæða væri til að fresta réttaráhrifum í þessu máli, það er að segja að stöðva brottflutning þeirra á meðan málið væri rekið fyrir íslenskum dómstólum.

„Hér er mannréttindadómstóll, sem er óháður dómstóll, sem kemst að andstæðri niðurstöðu, hafandi skoðað sömu gögn og íslensk stjórnvöld, og úrskurðað, að minnsta kosti að svo stöddu, að það beri að fresta flutningi fjölskyldunnar.“

Claudia segir afar sjaldgæft að Mannréttindadómstóllinn beiti bráðabirgðaíhlutun gagnvart Íslandi en hún man aðeins eftir einu öðru tilfelli sem átti sér stað á árinu 2010 eða 2011.

Bíða viðbragða stjórnvalda

Spurð að því ef komi til þess að fjölskyldan verði send úr landi á nýjan leik hvort hún sé þá aftur í þeirri stöðu að lenda á götunni í Grikklandi segir Claudia að svarið við þeirri spurningu verði að bíða viðbragða íslenskra stjórnvalda við fyrirspurn Mannréttindadómstólsins.

Segir hún að lokum að fyrirspurn dómstólsins gefi til kynna að það sé mikilvægt að íslensk stjórnvöld gangi úr skugga um fjölskyldunni bíði ekki raunveruleg hætta á mannréttindabrotum, verði hún send aftur til Grikklands.

„Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar verið er að senda einstakling eins og Hussein Hussein sem er bæði fatlaður og veikur og er því einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert