Ekki er hægt að segja til með vissu hvort kvika orsaki landrisið sem orðið hefur við Þorbjörn á síðustu dögum.
Þetta er mat Ólafs Flóvenz, sérfræðings í jarðhita og jarðvísindum, en hann auk annarra rannsökuðu landrisið sem hófst snemma árs 2020 við Þorbjörn. Grein þess efnis birtist í vísindaritinu Nature Geoscience í maí á síðasta ári.
Rannsóknir á landrisinu sem varð við fjallið árið 2020 bentu til þess að gas væri helsta orsök landrissins þó ekki hafi verið hægt að útiloka að einhver kvika bærist með.
Í samtali við mbl.is segir Ólafur að ekki sé hægt að vita nákvæmlega hvað orsakar landrisið undir Þorbirni nema með þyngdarmælingum sem sýna breytingar í þyngdarhröðun jarðar.
„Þetta getur verið kvika og þetta getur verið gas. Eins og ég held það hafi verið í upphafi þessarar hrinu. Mælingarnar á landrisinu sjálfu segja ekki til um orsökina. Það er hægt að finna út á hvaða dýpi hún er, það er hægt að finna út rúmmál þess sem er að safnast þarna fyrir. En það er ekki hægt að finna út hvað er í þessu rúmmáli,“ segir Ólafur og segir aðeins hægt að vita það með þyngdarmælingum.
Hann segist ekki vita til þess að slíkar mælingar hafi verið gerðar, nema fyrir greinina sem birtist á síðasta ári. Með þyngdarmælingum er hægt að reikna út heildarmassa þess rúmmáls sem troðist hefur inn í jarðlögin og veldur landrisinu.
„Ef við þekkjum bæði rúmmálið út frá mælingum á landrisinu og heildarmassann út frá þyngdarmælingum má reikna út eðlismassa þess efnis sem veldur landrisinu. Þar með má aðgreina hvort um er að ræða gas með lítinn eðlismassa eða kviku með háan eðlismassa,“ útskýrir hann.
Í rannsóknunum sem greinin byggir á voru gerðar mælingar yfir nokkur tímabil af landrisi og landsigi árið 2020. Sem fyrr segir bentu niðurstöðurnar til þess að innstreymi á koldíoxíði ylli landrisinu þó ekki væri hægt að útiloka að einhver kvika hefði komið með.
„Við töldum þá og teljum enn, það er ekkert sem hindrar þá túlkun okkar, að það er kvika að koma upp undir Fagradalsfjalli. Hún er að afgasast, losa sig við gas, sem hún verður að gera þegar hún fer frá háum þrýstingi niðri og upp í lágan þrýsting frekar grunnt. Þá losnar gas úr henni og eitthvert verður það að sleppa,“ segir Ólafur.
Og veldur það þá landrisinu hjá Þorbirni?
„Já. Þá er tilgátan sú, auðvitað ekki sönnuð, að gasið nái að fara þarna eftir því sem við köllum mörk brotgjarnrar og deigrar jarðskorpu sem er dýpra niðri undir Fagradalsfjalli heldur en bæði undir Krýsuvík og Þorbirni. Hún finnur sér einhverja leið að þessum svæðum og léttir þá um leið á þrýstingnum undir Fagradalsfjalli,“ útskýrir Ólafur.
„Mín skoðun er sú að það er ekkert hægt að fullyrða, eins og menn gera, að það sé kvika þarna að safnast fyrir. Það er ekkert víst,“ segir Ólafur.
Ólafur bendir á að nauðsynlegt sé að gera þyngdarmælingar reglulega til þess að vita hvað sé undir niðri. Um sé að ræða samanburðarmælingar og því hefði þurft að vakta svæðið reglulega til að hafa viðmiðunarpunkt.
Hann slær það þó ekki alveg út af borðinu að kvika sé að safnast þarna fyrir, það sé bara einfaldlega ekki vitað vegna þess að mælingar á því hafi ekki verið gerðar. Ef kvika er að safnast þarna fyrir sé augljóst mál að virkjunin í Svartsengi sé í mikilli hættu og Bláa lónið líka.
„Maður hefur auðvitað áhyggjur af því. Ef það skrúfast fyrir allt heitt vatn og jafnvel kalt vatn til Suðurnesja um lengri eða skemmri tíma, hvað þá? Menn hafa auðvitað haft þrjú og hálft ár til að hugsa málið og grípa til einhverra varúðarráðstafana,“ segir Ólafur.
Hann segist ekki vita hver undirbúningurinn hefur verið hjá HS Orku, sem rekur Svartsengi, ef eitthvað myndi gera virkjunina óstarfhæfa.
Virkjunin þurfi ekki að fara undir hraun til þess að verða óstarfhæf. Hún gæti orðið það af kvikuinnskotum eða öðru.
„Stóra hættan er náttúrulega sú að virkjunin fari undir hraun, eða borholurnar til dæmis. Eða lögnin frá Svartsengi í átt að Grindavík eða Keflavík. Það er þetta sem er áhyggjuefni. Hvað verður um alla íbúana á þessu svæði? Og Keflavíkurflugvöll? Eru menn tilbúnir með nokkur hundruð rafmagnsofna ef til þess kæmi? Það yrðu meiriháttar vandamál og vandræði ef það er ekki hægt að skaffa heitt vatn.“