Riðusmitið kom yfirdýralækni ekki á óvart

Riðusmit sem greindist á Húnaþingi vestra kemur yfirdýralækni ekki á …
Riðusmit sem greindist á Húnaþingi vestra kemur yfirdýralækni ekki á óvart. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir segir í samtali við mbl.is að riðusmit sem greindist í Húnaþingi vestra komi sér ekki á óvart. Varnarlínur séu þar ekki í góðu ástandi en vonir séu bundnar við breytingu á reglugerð svo ekki þurfi að fella alla hjörðina.

Riða greind­ist í skimunarsýni frá bæn­um Stór­hóli í Húnaþingi vestra. Um er að ræða eitt já­kvætt sýni úr tveggja vetra á. Á bæn­um Stór­hóli eru um 600 kindur rog tilheyrir bærinn Húna- og Skaga­hólfi. Riða greind­ist síðast á bæn­um árið 2006

„Þetta er ekki óvænt, þetta er þekkt riðusvæði,“ segir hún og bendir á að riða hafi kom upp á tveimur nágrannabæjum árið 2021. Þar að auki annað tilfelli í bæ þarna skammt frá árið 2015.

Riðusmit verið þrálát á svipuðum slóðum

Á Miðjarðarhólfi, Húnahólfi og Vatnsneshólfi hafa greinst fjögur tilvik af riðu á síðustu sjö árum og deila hólfin varnarlínu.

Hefur þú áhyggjur af þessum hólfum sérstaklega?

„Já að sjálfsögðu. Það eru búin að vera þrálát riða á þessu svæði, þar sem Stórhóll er. Reyndar var tilvikið sem kom upp í Miðfjarðarhólfi alveg nýtt og varnarlínan þar á milli hefur haldið hingað til,“ segir hún en bætir við að riða geti smitast á annan hátt en bara með sauðfé.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir.
Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir.

Vonast til að vinna málið eftir breyttri reglugerð

Hún kveðst hafa óskað eftir því við ráðuneytið að reglugerð verði breytt á þann veg að yfirdýralækni verði heimilt að leggja til niðurskurð á hluta hjarðar. Miðað við núverandi reglugerð má hún aðeins leggja til niðurskurð á allri hjörðinni.

Hún vonast til þess að reglugerðin taki breytingum við vinnslu þessa máls. Hún veit ekki hversu víðtæk förgunin getur orðið í þessu tilviki en býst við að hún verði með hefðbundnu sniði og að Kalka muni sjá um hana. Hún segir að gera megi ráð fyrir áframhaldandi riðuveiki næstu árin.

„Við megum alltaf búast við stöku tilfelli á næstu árum þangað til við erum komin með nógu mikið af verndandi arfgerðum,“ segir hún og bætir því við að riðuveiki muni halda áfram að greinast næstu 5-10 árin á meðan verið er að fjölga sauðfé með verndandi arfgerðum.

Varnarlínur ekki góðar á milli hólfa

Sigurborg segir að varnarlínurnar á milli Húnahólfs og Vatnsneshólfs séu ekki nógu góðar. Almennt séu varnarlínur tryggðar með náttúrulegum hindrunum eða girðingum en að þarna á milli sé varnarlínan ekki tryggð.

„Það er ekki gert við girðingarnar, það eru ekki til peningar til þess. Það er sama sjúkdómastaða í báðum hólfum þannig það hefur ekki verið lögð áhersla á viðhald á þessari girðingu,“ segir hún og bætir við að það sé á ábyrgð ríkisins að tryggja fjárveitingar varnargirðingar.

Hún segir að forgangsraða þurfi fjármagni til að viðhalda varnarlínum en að þessi hafi ekki verið í forgangi þar sem það sé sama sjúkdómsstaða í báðum hólfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert