Skilur vel að margir séu smeykir

Búið er að endurnýja búnað slökkviliðsins í Grindavík sem skemmdist …
Búið er að endurnýja búnað slökkviliðsins í Grindavík sem skemmdist við gróðureldana á gosstöðvunum við Litla-Hrút í júlí. mbl.is/Hákon

„Við erum náttúrulega á óvissustigi almannavarna og á óvissustigi felst það að fylgjast vel með, upplýsa og fara yfir allar áætlanir og plön sem eru í gangi og svo treystum við vísindasamfélaginu til þess að meta áhættuna, við erum ekki sérfræðingar í því.“

Þetta segir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, spurður í samtali við mbl.is hvort hann sé uggandi yfir stöðunni eftir jarðhræringar síðustu daga á Reykjanesskaga.

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík.
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík. mbl.is/Eyþór

Segir í tilkynningu frá Veðurstofunni að staðan geti breyst hratt og ekki sé hægt að úti­loka að kvika nái að brjóta sér leið upp í jarðskorp­una norðvest­ur af fjall­inu Þor­birni.

Finna frekar fyrir skjálftum núna

Inntur eftir því hvað þurfi að gerast svo Grindavík verði rýmd segir Einar þá stöðu ansi langsótta og lögreglustjóri sjái alfarið um það. 

„Það þyrfti að vera mjög mikið í gangi til þess að gripið yrði til þess. Þó það komi upp gos fyrir ofan Þorbjörn, þá er það langt frá bænum í upphafi. Óvissustig almannavarna á ekki að hafa áhrif á dagleg störf eins né neins, það eru allir bara á varðbergi og fylgjast vel með og yfirfara heim í hérað og eins og er þá hefur það ekki meiri áhrif. Það eru bara allir að gera sitt klárt.“

Þá tekur Einar fram að í aðdraganda síðasta goss hafi bæjarbúar fundið lítið fyrir skjálftum en nú sé staðan önnur.

„Þá fór Grindavík mjög létt út úr skjálftum, það hafa verið meiri skjálftar núna og það er óþægilegt. Skjálftar eru óþægilegir þannig að fólk er vart um sig og uggandi yfir hvað ef og hvað verður en þetta er þannig atburður að þetta er ekki eitthvað sem menn þurfa að hlaupa neitt undan. Þetta er langtímaatburður og gerist afskaplega hægt. En ég skil og ber fulla virðingu fyrir því að það eru margir smeykir við þetta,“ segir hann.

„Ef ein leið lokast þá tekur önnur við“

Að sögn Einars er búið að teikna upp alls konar sviðsmyndir og hugsa meðal annars fyrir því hvað gerist ef Grindavíkurvegur fer undir hraun.

„Það eru náttúrulega fleiri leiðir inn og út úr bænum en Grindavíkurvegur. Við erum með Nesveginn og Suðurstrandarveg og svo fullt af öðrum slóðum þarna. Ef ein leið lokast þá tekur önnur við og þetta er bara svona verkefni sem við þurfum ekkert að vera að standa á öskrinu eða hlaupa. Hraun vellur mjög hægt fram þannig að þetta er margra sólarhringa atburður ef þetta fer af stað sem við vonum að sjálfsögðu ekki.“

Nauðsynlegt að segja sannleikann

Spurður í framhaldinu hvort búið sé að teikna upp drög að varnargörðum segir Einar ýmis plön til þótt erfitt sé að staðsetja eitthvað þegar ekki er vitað fyrirfram hvar atburðurinn verður.

„Það eru til áætlanir um það, uppbygging og svoleiðis,“ segir hann og blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort það sé stressandi að vera slökkviliðstjóri á tímum sem þessum.

„Nei, við reynum bara að gera okkar besta og standa klár á okkar. Við stöndum bara saman bæjarbúar, allir sem einn. Það er bara að skapa ekki einhverja hræðslu, frekar að vera upplýsandi og vera ekki að fela neitt, segja sannleikann.“

Einar segir einnig mikilvægt að hrópa ástandið ekki upp þannig að það skapist læti.

„Þessir atburðir gerast mjög hægt í rauntíma. Þetta er ekki amerísk mynd þar sem kemur einhver sprengja. Þetta er frekar eins og hafragrautur sem sýður upp úr potti, jörðin rifnar og þetta vellur upp eins og hafragrautur svona í upphafi. Ég væri í einhverju öðru starfi ef ég svæfi ekki yfir þessu, ég sef alveg rólegur en við berum virðingu fyrir náttúrunni og upplýsum frekar, tökum þetta bara saman. Vonandi lægir svo bara og þetta líður hjá.“ 

Öðruvísi aðstæður núna

Í júlí birtist viðtal við Einar í Morgunblaðinu þar sem hann lýsti því hvernig búnaður slökkviliðsins hefði skemmst og slöngur bæði eyðilagst og brunnið eftir baráttuna við gróðureldana á gosstöðvunum við Litla-Hrút. Sagði hann á þeim tíma að þörf væri á að kaupa svolítið af búnaði.

En skyldi vera búið að endurnýja búnaðinn og er slökkviliðið í stakk búið til að takast á við gróðurelda ef til þeirra kemur?

„Við erum búin að laga það og erum í eiginlega betur staddir í dag með búnaðinn. Jarðvegurinn er líka þannig núna að það er komið haust og allt blautt þannig að magnið verður ekki eftir því, þetta eru öðruvísi og jafnvel betri aðstæður,“ segir hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert