This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Hulda Jónsdóttir Tölgyes sálfræðingur segir mikið ójafnrétti ríkja á íslenskum heimilum þegar litið er til verkaskiptingar á milli karla og kvenna. Síðustu ár hefur Hulda kynnt sér málefni kvenna til hlítar og vakið athygli almennings á þriðju vaktinni. Hulda ræðir um skaðleg áhrif þriðju vaktarinnar í Dagmálum dagsins.
„Rannsóknir sýna að það er oft erfitt að greina á milli mæðrunar og að vera maki einhvers þegar kemur að þessu,“ segir Hulda. „Rannsóknir sýna líka að konur eru miklu meira í því að minna maka sinn og börnin á eitthvað heldur en að karlar eru að minna heimilisfólk á hluti,“ segir hún jafnframt.
Hulda og eiginmaður hennar, Þorsteinn V. Einarsson, kynjafræðingur og hlaðvarpsstjórnandi Karlmennskunnar, hafa skrifað bók um þriðju vaktina. Bókin heitir Þriðja vaktin - Jafnréttishandbók heimilisins og er ætlað að varpa ljósi á reynsluheim kvenna og streituálagið sem á þær hallar.
Við skrifin leituðu hjónin til almennings eftir reynslusögum. Alls bárust þeim um 300 frásagnir og segir Hulda að hugræn byrði kvenna hafi verið rauði þráður frásagnanna. Bókin kemur út í lok nóvembermánaðar.
Af frásögnum margra íslenskra kvenna að dæma upplifa þær eiginmenn sína sem eina af börnunum vegna þeirrar auknu hugrænu byrði sem fellur gjarnan á herðar þeirra, einna helst í gagnkynhneigðum samböndum.
Hulda telur mikilvægt að karlar opni augun fyrir þeirri skaðsemi sem þriðja vaktin veldur konum og þeir fari að beina sjónum sínum að þeirri duldu misskiptingu sem á sér stað á milli kynja. Hún segir fræðsluna til staðar en stór hluti vandamálsins séu rótgróin samfélagsleg viðhorf sem þurfi að breytast.
„Karlar þurfa að stíga inn af fullum þunga, taka ábyrgð og gera það að eigin frumkvæði.“
Smelltu hér til að horfa eða hlusta á viðtalið við Huldu í fullri lengd.