Það eru ekki margar óbyggðar lóðir í Þingholtunum í Reykjavík. Nú hefur skipulagsfulltrúa borist fyrirspurn um uppbyggingu á slíkri lóð, þ.e. lóðinni Bergstaðastræti 32A. Hún stendur skáhallt á móti Hótel Holti.
Á fundi skipulagsfulltrúa í sumar var lögð fram fyrirspurn Hótel Holts Hausta ehf., dags. 17. júní 2023, ásamt bréfi Att Ark ehf., um uppbyggingu á lóðinni. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.
Fram kemur í greinargerð með fyrirspurninni að lóðin hafi undanfarið verið leigð út sem bílastæði fyrir nágranna. Áður fyrr var hún nýtt sem bílastæði fyrir gesti Hótel Holts. Lóðin er 267 fermetrar að stærð. Á lóðinni stendur lítið rautt timburhús, byggt 1906 og því friðað.
Reiturinn er samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 skilgreindur sem íbúðabyggð. Hvorki er í gildi hverfisskipulag né deiliskipulag fyrir reitinn.
Fram kemur í greinargerð arkitektsins (Att Ark ehf.) að nýbygging á reitnum verði endanlega hönnuð samkvæmt áskilnaði um að „nýjar byggingar í eldri hverfum verði lagaðar að einkennum byggðarinnar […] og verði aðeins heimilaðar sé sýnt fram á að þær séu til bóta fyrir heildarsvip byggðarinnar“, samanber aðalskipulag Reykjavíkur 2040.
Nánar er fjallað um uppbyggingaráform í Þingholtum í Morgunblaðinu í dag.