Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir rangan framburð fyrir rétti, en hann mætti sem vitni í stóru amfetamínmáli og tók á sig sök varðandi framleiðslu á 8,6 kg af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði.
Þrír aðrir karlmenn voru dæmdir í málinu og sagði í dómi héraðsdóms að framburður hans hefði verið til þess fallinn að afvegaleiða við úrlausn málsins.
Maðurinn er ákærður samkvæmt 142. gr. almennra hegningarlaga sem tekur til þess ef einhver gefur rangan framburð fyrir rétti eða stjórnvaldi sem hefur heimild til heitfestingar. Varða slík brot allt að fjögurra ára fangelsi.
Í málinu hlaut Alvar Óskarsson þyngsta dóminn í Landsrétti, eða sex ára fangelsi, en þeir Margeir Pétur Jóhannsson og Einar Einarsson fimm ára dóm hvor.
Mildaði Landsréttur dóma þeirra úr héraði en þeir höfðu allir fengið einu ári meira þar. Einar og Alvar höfðu áður hlotið þunga dóma í Pólstjörnumálinu svokallaða.
Rannsókn málsins var umfangsmikil þar sem fylgst hafði verið með framleiðslu þeirra og var fjöldi gagna lagður fram um aðkomu þeirra að framleiðslunni. Þegar skammt var í að málið færi fyrir dóm gaf sig fram vitni sem tók á sig alla sökina varðandi framleiðslu amfetamínsins í samstarfi með öðrum manni sem hann neitaði að greina nánar frá, nema að hann væri Pólverji.
Þrátt fyrir að hluti þess sem maðurinn sagði hefði getað gengið upp segir í dómum bæði héraðsdóms og Landsréttar að framburður hans hafi verið ótrúverðugur og er algjörlega litið framhjá framburði hans við sönnunarmat.
Er meðal annars vísað til þess að þó hann hafi að hluta getað lýst amfetamínsframleiðslu í skýrslutöku hafi hann ekki nefnt ýmis mikilvæg atriði í framleiðslunni. Þannig nefndi hann ekki að hafa notað rafmagnstæki við framleiðsluna. Þá sagðist hann ítrekað hafa hrært efnunum saman með sleif, en á vettvangi fannst hrærivél með amfetamínleifum. Þá mundi hann ekki eftir að hafa notað þurrís við framleiðsluna.
Þá var bankakort hans notað á öðrum stað á landinu á þeim tíma sem hann sagðist hafa verið í sumarhúsinu við framleiðsluna. Einnig var ýmislegt annað sem gekk illa upp í framburði hans. Var því niðurstaða dómstóla að framburðurinn væri ótrúverðugur og til þess fallinn að afvegaleiða úrlausn málsins.
Krefst saksóknari þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar. Verði hann fundinn sekur gæti hann því hlotið dóm líkt og hann vildi fá á sig í fyrra málinu.